Húsnæðismál

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 17:51:29 (5727)

2004-03-29 17:51:29# 130. lþ. 89.7 fundur 785. mál: #A húsnæðismál# (íbúðabréf) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[17:51]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef gjaldtökuheimildin um þjónustugjöld er fyrir hendi í 49. gr., hver er þá ástæðan fyrir því að verið er að bæta þessu við í 10. gr. laganna sem fjallar um tekjur? Þar er sagt að Íbúðalánasjóður fjármagni þau verkefni sem honum eru falin samkvæmt lögum þessum með þeim hætti sem hér segir, með leyfi forseta:

,,1. Með tekjum af eigin fé sjóðsins. ...

2. Með útgáfu húsbréfa.

3. Með sölu húsnæðisbréfa og lántöku samkvæmt fjárlögum hverju sinni.``

Síðan er lagt til í frv. að við bætist liður sem orðist svo: ,,Með þjónustugjöldum skv. 49. gr.``

Ef ráðherrann telur sig þegar hafa heimildina í lögum varðandi 49. gr., hvers vegna er verið að bæta við sérstöku ákvæði í 10. gr. þar sem verið er að vitna til hvernig Íbúðalánasjóður fjármagnar sig? Þar er verið að bæta inn lið sem heitir Þjónustugjöld.

En við skoðum þetta væntanlega nánar í efh.- og viðskn. sem fær málið til meðferðar.

Ég hef ítrekað spurt um áhættugreininguna. Mér finnst ráðherrann ekki svara því og ég hef raunverulega ekki fengið svar við því þó ég hafi ítrekað spurt um það hvort hún liggi fyrir, hvort fyrirtækið Ráðgjöf og efnahagsspá sem vitnað var til í skýrslu Landsbankans hafi skilað niðurstöðu sinni, en niðurstaðan átti að liggja fyrir áður en frv. yrði lagt fyrir þingið. Ég held að sú skýrsla hljóti að gefa okkur mikilvægar vísbendingar um hvers megi vænta varðandi vexti, vaxtaálag og áhættu og hvaða kjör lántakendum bjóðast. Þess vegna hefði ég viljað fá það uppgefið hér og nú hvort skýrslan sé ekki öllum opin og hvort efh.- og viðskn. fái hana ekki til umfjöllunar.