Húsnæðismál

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 17:53:40 (5728)

2004-03-29 17:53:40# 130. lþ. 89.7 fundur 785. mál: #A húsnæðismál# (íbúðabréf) frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[17:53]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get í sjálfu sér ekki svarað þessum spurningum skýrar en ég hef gert nú þegar við umræðuna. Hvað varðar þjónustugjöldin og umræðuna um þau er fyrst og fremst um lagatæknilegt atriði að ræða. Það er fyrst og fremst verið að breyta orðalagi í greininni, en ekki verið að efna til nýrra gjalda af neinum toga eins og ég tel mig, hæstv. forseti, hafa rakið í máli mínu áðan.

Hvað varðar síðara atriðið er hægt að upplýsa það, eins og ég tel mig hafa gert áðan, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, að það fyrirtæki sem hér er gert að umtalsefni, Ráðgjöf og efnahagsspá, er einn þeirra aðila sem hefur verið fenginn til að leggja mat á þær breytingar sem felast í frv. Að sjálfsögðu eru þær upplýsingar sem þar liggja fyrir ekkert leyndarmál. Hins vegar, eins og ég gat líka um áðan, eru ákveðin atriði málsins þess eðlis að þau varða viðkvæmar markaðsupplýsingar og um þær verður að fara með þeim hætti sem tilhlýðilegt er samkvæmt lögum og reglum.