Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 18:22:51 (5734)

2004-03-29 18:22:51# 130. lþ. 89.8 fundur 485. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar handfærabáta) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[18:22]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get fyllilega tekið undir áhyggjur hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar um að það er vægast sagt undarlegt að sá flokkur sem fer með sjávarútvegsmál í landinu, Sjálfstfl., þingmenn hans, svo ég tali nú ekki um hæstv. ráðherra, skuli ekki hafa nokkra döngun í sér til að fylgjast með umræðum í Alþingi þegar talað er um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, ekki síst þegar það er vitað að hæstv. ráðherra hefur staðið í viðræðum við Landssamband smábátaeigenda. Landssamband smábátaeigenda hefur margsinnis endurtekið yfirlýsingar um það og öll félög innan Landssambands smábátaeigenda hafa ályktað um það á undanförnum árum að menn ættu að viðhalda dagakerfinu og fá í það eðlilegt gólf. Það er bara sérstakt réttlætismál. Þess vegna tek ég undir það sem hv. þm. sagði áðan, að það er mjög undarlegt vægast sagt að á sama tíma og ráðherrann --- ja, ég vil bara orða það svo --- þykist vera að halda uppi viðræðum sem eigi að leiða til þeirrar niðurstöðu að viðhalda sóknardagakerfinu þá skuli hann ekki hafa nokkurn vilja til þess að hlusta á málflutning þingmanna um það sama kerfi og hann er að vinna með úti í bæ. En það er nú einfaldlega þannig því miður að við stöndum uppi með það í dag að hér er enginn þingmaður frá Sjálfstfl. Vonandi verður hægt að særa þá hingað í salinn. Ég trúi því ekki að þeir séu orðnir svo aumir að þeir geti ekki tekið þátt í þessari umræðu. Skárri væri það nú aumingjaskapurinn, hæstv. forseti, ef menn segja eitt vestur á fjörðum en geta svo ekki staðið við það að taka þátt í umræðu þegar verið er að ræða framtíð og möguleika fjölda manna og ekki síst hagsmuni þess kjördæmis sem þeir eru þingmenn fyrir.