Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 18:50:04 (5741)

2004-03-29 18:50:04# 130. lþ. 89.8 fundur 485. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar handfærabáta) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[18:50]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það síðasta í máli hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar sem rök í málinu er örugglega rétt að því leyti til að á meðan hægt er að leigja til sín heimildir á frjálsum markaði er auðvitað hægt að halda því fram að aðgangur sé inn í kerfið.

Ég vil hins vegar aðeins víkja að öðru atriði í ræðu hv. þm., að sóknardögunum, að menn þyrftu þá líka að geta selt sóknardaga í smáum einingum. Það var sett inn í lögin að menn gætu gert það en í því tilliti var hins vegar notuð ákaflega gömul viðmiðun, þ.e. viðmiðun fiskveiðiáranna 1996--1997 og 1997--1998. Svo er enn. Það er enn þá verið að nota þessa gömlu viðmiðun til að leggja verðmat á sóknardagana, alveg óháð því hvernig aflamörk eru að breytast og hvað aðrir hafa fengið í öðrum kerfum eins og aflamarkskerfinu. Ég vek athygli á því að á þessum fiskveiðiárum sem notuð eru til viðmiðunar varðandi verðgildi sóknardaganna og hvernig má nota það voru leyfðar heildaraflaheimildir af þorski sem voru 186 þús. tonn annað árið og 203 þús. tonn hitt árið. Það tekur mið af því sem þá var til staðar.

Reynslan er orðin gömul og spurningin er: Ef menn ætla að vera með framseljanleika í þessu kerfi, á þá sóknardagakerfið að verðleggjast á einhverri viðmiðun langt aftur í fortíðinni en aflamarkskerfið að taka mið af markaðnum bara fram og til baka? Það er margt við þetta að athuga og margt sem þarf að velta fyrir sér.

Ég fagna þeirri yfirlýsingu hv. þingmannsins að fljótlega verði niðurstaða úr viðræðum Landssambands smábátaeigenda og sjútvrh. og ég vona að hún verði í þá átt að tryggja kerfið í sessi.