Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 18:54:29 (5743)

2004-03-29 18:54:29# 130. lþ. 89.8 fundur 485. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar handfærabáta) frv., SigurjÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[18:54]

Sigurjón Þórðarson (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni fyrir að ræða við okkur um þetta mál. Hann er eini þingmaður stjórnarflokkanna sem hefur tekið þátt í þessari umræðu og stundum er hann einn á báti hvað varðar skoðanir sínar eða svona einn síns liðs varðandi sjávarútvegsmál innan stjórnarflokkanna. Manni hefur þótt það oft og tíðum. Í þessu máli á hann þó marga skoðanabræður sem hafa tekið undir með honum í þessum málflutningi. Ég vil nefna hv. þm. Einar Odd Kristjánsson sem hefur lýst því yfir að hann styðji þetta mál, fyrri hlutann, rétt eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson. Ég vil einnig nefna hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sem tók mjög jákvætt í málið á fundi á Ísafirði 13. september og sama má segja um hæstv. samgrh., Sturlu Böðvarsson, hann tók mjög jákvætt í 23 daga gólfið. Eru þá ekki allar líkur á því að þetta frv. verði samþykkt, að það fái mjög jákvæða umfjöllun í stjórnarflokkunum, að frv. verði að lögum, í það minnsta fyrri hluti þess?

Það hefur einnig komið fram, m.a. í blaðagreinum, að hv. þm. Hjálmar Árnason sem hefur litið mikið til Færeyja eftir fyrirmynd um hvernig eigi að stjórna fiskveiðum, hafi lýst því yfir að hann vilji koma á gólfi í dagabátakerfið. Þess vegna langar mig að spyrja, frú forseti, hv. þingmann hvort hann telji ekki allar líkur á því að þetta frv. renni í gegn.