Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 18:56:29 (5744)

2004-03-29 18:56:29# 130. lþ. 89.8 fundur 485. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar handfærabáta) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[18:56]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil fyrst segja varðandi sjónarmið þingmannsins um að ég sé oft einn með sjónarmið mín í Framsfl. að ekki er allt sem sýnist í þeim efnum. Ég vil minna á að á síðasta kjörtímabili starfaði innan flokksins sjávarútvegsnefnd sem var skipuð til þess að yfirfara stefnu flokksins í sjávarútvegsmálum í tengslum við það að á Alþingi stóð þá yfir heildarendurskoðun laganna um stjórn fiskveiða. Í þeirri nefnd voru fleiri en dæmi eru um að hafi verið í nokkurri nefnd á vegum flokksins, 160--170 manns. Sérstaklega var mikil þátttaka af hálfu þeirra sem starfa í atvinnugreininni en líka annarra sem hafa áhuga á þessum málum. Nefndin starfaði nokkuð mikið og að lokum valdi hún á milli tveggja meginsjónarmiða, annars vegar þess að hafa óbreytt kerfi með veiðigjaldi og hins vegar þess að gera verulegar breytingar á kerfinu í gegnum svonefnda fyrningarleið, leið til að laga núverandi kerfi að nýju kerfi.

Niðurstaðan úr kosningu í nefndinni um þessar tvær leiðir var sú að tvær jafnstórar fylkingar flokksmanna voru með hvorri leið um sig. Ég get því ekki tekið undir að sjónarmið mín eigi ekki fylgi að fagna innan flokksins. Þvert á móti veit ég að þau eiga miklu fylgi að fagna meðal flokksmanna. Þótt niðurstaðan hafi orðið sú sem reyndin varð eiga þessi sjónarmið mikinn stuðning innan flokksins.

Hvað varðar það hvort líklegt sé að frv. renni í gegn ræðst auðvitað af því hvort niðurstaða fæst úr viðræðum sjútvrh. við Landssamband smábátaeigenda. Ef engin niðurstaða fæst af því og ráðherra flytur ekkert mál tel ég koma mjög til skoðunar að afgreiða frv.