Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 19:16:53 (5749)

2004-03-29 19:16:53# 130. lþ. 89.8 fundur 485. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar handfærabáta) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[19:16]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi lokaorð síðasta ræðumanns get ég ekki nefnt nákvæmlega hvað flotinn gæti aukið við sig. Ég held þó að hann gæti aukið það mikið við sig að það mundi skipta máli fyrir byggðirnar. Þá væri til einhvers barist ef svo væri. Stærstu bátarnir gætu fiskað meira en hinir minni en ekki munar mjög miklu á skaki, á því hvað hægt er að veiða á 3--4 tonna bát samkvæmt þessum mælingum og 6 tonna bát. Þar hleypur ekki á miklu en til er töluvert af bátum sem eru 3,5--4 tonn og minni sem mundu stækka ef leyfi fengist til þess. Í framtíðinni yrðu sjálfsagt flestir bátar hátt í sex tonn, ef þetta yrði leyft. Ég held að sá floti gæti orðið gagnlegur og betri bátar en menn hafa verið að gera út. Þetta eru óttalegir hrútspungar, sumt af því sem róið er á og varla mönnum bjóðandi.

Ég fagna því að hv. þm. telur að þessi tillaga hafi verið felld efnislega þó að menn hafi ekki verið með fulla andstöðu við að 23 dagar yrðu ofan á. Ég ætla ekki að efna til neins ófriðar um málið á meðan það er ekki lengra komið og lýsi mig tilbúinn til samstarfs um að reyna að sjá til að þetta mál komist í gegnum Alþingi sem allra fyrst. Það skiptir miklu máli fyrir þá sem standa í slíkri útgerð að fá fast land undir fæturna.