Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 19:20:52 (5751)

2004-03-29 19:20:52# 130. lþ. 89.8 fundur 485. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar handfærabáta) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[19:20]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er örugglega hárrétt að ólíklegt sé að fullur salur af þingmönnum sé tilbúinn að skrifa upp á það sem ég hélt áðan fram að ætti að gera í þessu efni. Ég vil hins vegar vara við því að menn fari út í flóknar ákvarðanir sem erfitt verður að framfylgja í sambandi við vélarstærðir og einhverja slíka hluti til þess að minnka sóknargetu, rúllufjölda o.s.frv. Ef menn vilja á annað borð takmarka þessa möguleika þá hljóta menn líka að velta því fyrir sér hvort ekki eigi að fara einföldustu leiðina, að sett verði hámarksveiði á hvern bát. Það er auðvitað einfaldasta leiðin.

Ég held að það hljóti að verða að skoða í samhengi frekar en halda inn á þá slóð að fara í flókið og dýrt eftirlit sem verður örugglega reynt að snúa á og erfitt að framkvæma. Það er nokkuð sem ég hef ekki mikla trú á. En ég veit að forustumenn smábátaeigenda hafa talið að fara ætti þessa leið með vélarstærðina og jafnvel með rúllufjöldann. Það er að mínu viti flókið og snúið að fylgja því eftir.