Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 19:24:38 (5753)

2004-03-29 19:24:38# 130. lþ. 89.8 fundur 485. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar handfærabáta) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[19:24]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Enn er ekki komið í ljós um hvað verður kosið hér, þ.e. hvaða ákvæði koma frá sjútvn. til afgreiðslu á Alþingi. Það er alveg hægt að láta sér detta í hug að þar inni verði takmarkanir en ekki þessi dagafjöldi. Hv. þm. Kristinn Gunnarsson tók það fram áðan að þessir 23 dagar væru ekkert klárir, það lægi ekki fyrir stuðningur við þann dagafjölda. Hér hefur verið talað um aðrar takmarkanir þannig að þegar málið kemur að lokum frá sjútvn., ef hún kemur t.d. í upphafi frá hæstv. sjútvrh., þá megum við búast við því að sú tillaga verði ekki eins vaxin og málið sem hér er til umræðu.

Menn geta velt því fyrir sér hvort menn hafi svikið gefin loforð þegar þar að kemur. Ég ætla ekkert að fara út í vangaveltur um það hér. Menn geta auðvitað flutt brtt. við það sem kemur úr sjútvn. þegar þar að kemur og þá gera menn það. En ég trúi því að sumt af því sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sagði í ræðum sínum fyrr í dag megi taka sem aðvörun um að menn ætli að klípa ýmislegt utan af þessum ákvæðum áður en sá stuðningur fæst við málið sem stjórnarliðið þarf til þess að það fari í gegn.