Fjarskiptalög og misnotkun netmiðla

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 13:38:23 (5757)

2004-03-30 13:38:23# 130. lþ. 90.91 fundur 442#B fjarskiptalög og misnotkun netmiðla# (aths. um störf þingsins), GÖg
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[13:38]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Ég held að flestallir þingmenn sem hlustuðu á fréttir í gærkvöldi hafi verið jafnhissa á því sem þar kom fram. Auðvitað er það samt þannig að þau mál sem eru núna í deiglunni hafa gert það að verkum að fjölmiðlar eru að vinna sína vinnu. Þá komast þeir að því að þarna voru gerð mistök hjá hv. samgn. í því máli sem hér er um rætt. Þá hafa þeir auðvitað samband við ríkislögreglustjóra o.s.frv.

Það sem ég vil líka benda á er að þótt veraldarvefurinn sé góður hefur hann líka sínar afar slæmu hliðar og það er nauðsynlegt að reisa þessar girðingar. Ég tek heils hugar undir að auðvitað var samgn. líka að gera þetta í sinni bestu trú, ég efast ekki um það, og mér finnst afar góð sú yfirlýsing frá hv. formanni Guðmundi Hallvarðssyni um að nefndin muni taka þetta upp og skoða það.

Ég vil líka í þessu sambandi minna á fyrirliggjandi þáltill. um ábyrgð þeirra sem reka netþjóna. Hún er nefnilega afar mikil og það verður að gera hana mjög skýra. Svíar hafa gert það. Þeir gerðu það kannski í trássi við tilskipun Evrópusambandsins sem er angi af þessu sama máli. Það er mjög mikilvægt að ábyrgð netþjóna sé algjörlega skilyrðislaus á því efni sem þeir hafa fram að færa. Þetta tengist líka umræðunni og tillögum í skýrslunni um klám og vændi. Svo að því sé haldið til haga hér var líka bent á þetta og mikilvægi þess að gera ábyrgðina skýra.