Fjarskiptalög og misnotkun netmiðla

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 13:47:07 (5762)

2004-03-30 13:47:07# 130. lþ. 90.91 fundur 442#B fjarskiptalög og misnotkun netmiðla# (aths. um störf þingsins), GHall
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[13:47]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég þakka fyrir umræðuna, en vil þó geta þess að í grg. frá Persónuvernd komu engar athugasemdir við þessa margnefndu 42. gr. Greinin var heldur ekki ágreiningsatriði innan samgn. Það kemur engin athugasemd við hana hvorki í meirihluta- né minnihlutaáliti. Enda segir, með leyfi forseta:

,,Varðandi reglur um meðferð umferðargagna sem fram koma í 42. gr. laga nr. 81/2003, um fjarskipti, hafa þær staðið í tilskipunum ESB síðan 1997. 6. gr. tilskipunar 97/67/EB hafði þessa reglu að geyma. Sú tilskipun var ekki innleidd að fullu þegar fjarskiptalög nr. 107/1999 voru sett.

Sama regla kemur fram í 6. gr. tilskipunar 2002, nr. 58 frá EB, sem leysir hina eldri af hólmi. Þegar unnið var að samningu frv. til nýrra fjarskiptalaga var stefnt að því að innleiða allar fjarskiptatilskipanir á fullnægjandi hátt og gera það á réttum tíma. Til stóð að hinar nýju tilskipanir tækju gildi í öllum EES-ríkjum á sama tíma, þ.e. 25. júlí 2003.``

Það voru því engin mistök hjá nefndinni. Við vorum að fara þær leiðir sem búið var að móta af hinu margumtalaða EES, og kannski því miður. Við horfum kannski allt of mikið í þá átt. (Gripið fram í: Við gengum lengra en þar var kveðið á um.) Það er rétt sem hv. þm. kallar fram.

Eins og ég hef sagt áður mun hv. samgn. taka málið upp. Alþingismenn hafa ekki þá hugsun að ætla níðingum, barnaníðingum eða öðrum aðilum sem ástunda ýmsa glæpi á netinu að geta leikið þar lausum hala. Það er alveg ljóst.