Ábúðarlög

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 14:05:35 (5765)

2004-03-30 14:05:35# 130. lþ. 90.3 fundur 782. mál: #A ábúðarlög# (heildarlög) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[14:05]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kom fram í upphafi máls hæstv. landbrh. að þessi mál hafa verið lengi til skoðunar, þ.e. þau tvö frv. sem hér er verið að ræða, annars vegar það sem við erum núna með í umræðunni, um ábúðarlög og hins vegar frv. um jarðalög, þ.e. að þau hafi verið lengi til skoðunar og umfjöllunar á mörgum stöðum, hjá nefndum, ráðum, bændasamtökum og víðar, ef ég skil hæstv. ráðherra rétt. Það er af hinu góða ef menn hafa lagt tíma og metnað í að endurskoða þessi lög. Ég hef ekkert við það að athuga. Það er sjálfsagt að lög séu tekin til endurskoðunar og jafnvel oftar en á 27 ára fresti eins og hér er verið að gera.

Það sem vekur hins vegar furðu mína og ég vil spyrja ráðherrann að er ákvæði í frv. um að gildistakan skuli vera 1. júlí á þessu ári. Mér finnst alveg makalaust --- ég verð að orða það þannig --- að hér skulum við fá tvo gríðarmikla lagabálka nánast í lok þings --- ég held að það séu einir 11 eða 12 þingdagar eftir páska --- og að okkur sé ætlað að afgreiða þessi frv. sem snerta mjög marga einstaklinga persónulega. Þau og snerta sveitarfélögin mikið í landinu og eftir því sem ég heyrði á máli ráðherra þá er verið að taka svolítið völdin frá sveitarfélögunum. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki sé eðlilegt í því ljósi að þessi mál hafa verið mikið og lengi til umfjöllunar í þjóðfélaginu, að alls ekki verði gerð krafa til þess að þingið kláraði þetta nú á vordögum heldur fengjum við nægan tíma til þessarar umfjöllunar.