Ábúðarlög

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 14:09:34 (5767)

2004-03-30 14:09:34# 130. lþ. 90.3 fundur 782. mál: #A ábúðarlög# (heildarlög) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[14:09]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Því ber að fagna sem hæstv. ráðherra lýsir yfir varðandi gildistökuákvæðið. En samt má skilja það mjög skýrt á máli hæstv. ráðherra að hann ætlast til þess að við afgreiðum þetta mál á vordögum. (Gripið fram í: Hann langar.) Ég verð að segja það sem mína skoðun að ég tel að við eigum ekki að flýta okkur í þessu máli. Þetta eru tveir mikilvægir lagabálkar sem, eins og ég sagði í fyrra andsvari mínu, skipta miklu máli fyrir fjölmarga einstaklinga í landinu sem eiga jarðir, eru þar ábúendur eða eiga jarðir án þess að þær séu í ábúð og þetta skiptir miklu máli fyrir sveitarfélögin. Mér heyrðist á máli ráðherra að verið væri að draga úr því valdi sveitarfélaganna að þau gætu haft afskipti af jörðum, hvernig væri með þær farið o.s.frv.

Ég held að menn verði að skoða þetta mjög vandlega. Ég er ekki endilega að mæla á móti breytingum á valdsviði sveitarstjórna að þessu leyti en sveitarstjórnirnar þurfa samt að hafa ákveðið vald til þess að geta komið í veg fyrir að jarðir séu látnar drabbast niður. Búseta í sveitunum má ekki verða mál sem kemur sveitarstjórnum ekkert við. Það tel ég algerlega útilokað og við hljótum að horfa til þess.

Hæstv. forseti. Ég tel að þetta mál eigi að fá góða umfjöllun í nefnd og að vinna eigi með málið í vor, að senda eigi það til umsagnar, vinna með það í sumar og taka það fyrir á hausti komanda með það að leiðarljósi að þinginu hafi gefist nægur tími til að vinna þessi tvö stóru lagafrumvörp.