Ábúðarlög

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 14:13:12 (5769)

2004-03-30 14:13:12# 130. lþ. 90.3 fundur 782. mál: #A ábúðarlög# (heildarlög) frv., JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[14:13]

Jón Bjarnason:

Frú forseti. Þetta frv. til ábúðarlaga sem hæstv. landbrh. hefur mælt fyrir er fyrir margra hluta sakir tímabært. Eins og ráðherra gerði grein fyrir byggja núgildandi ábúðarlög á nokkuð gömlum en um margt nokkuð traustum grunni.

Ákvæði um ábúð og um búseturétt og ábúðarrétt fólks á jörðum, þó svo það ætti ekki jarðirnar, og eins líka um meðferð á landgæðum voru einmitt bundin í þessi ábúðarlög. Þau hafa því skipt gríðarlega miklu máli fyrir okkur í gegnum aldirnar og áratugina. Því er rétt að hafa í huga þegar fjallað er um endurskoðun á ábúðarlögum að við erum að taka á vissum hornsteini, grunni búsetu, landnýtingar og landverndar hér á landi.

Þó allmörg atriði í núgildandi ábúðarlögum séu sannarlega á vissan hátt orðin úrelt eða tákn síns tíma fer því fjarri að grunnur ábúðarlaganna sé úreltur. Þar vil ég alla vega staldra við, frú forseti. Ég vil staldra við þau pólitísku skilaboð sem ábúðarlög fela í sér. Hingað til hafa þau falið í sér rétt fólks til þess að sitja og búa á jörðum og til þess að geta nýtt sér eðlilega þann jarðargróða, það sem viðkomandi jörð gat boðið upp á með nokkuð góðu atvinnuöryggi og það til lengri tíma.

[14:15]

Sjálfsagt hefur mönnum fundist sá réttur ábúandans vera nokkuð til þess að skerða rétt eigandans sem leigði út jörðina sem vildi helst, í sumum tilfellum með skömmum fyrirvara, geta breytt um ráðstöfun á viðkomandi jarðnæði. Því hafa þessi lög haft það hlutverk að tryggja bæði stöðu þess fólks sem þar hefur jarðarafnot og einnig ákveðna verndun og nýtingu á þeim auðlindum sem tilheyra viðkomandi jörð.

Ég held að það sé alls ekki tímabært og engan veginn rétt að ætla að slá þessa grunnhugsjón af og það eigi að fara gætilega í að veikja þá hugsjón sem staðið hefur að baki ábúðarlögunum. Það getur verið að við séum núna tímabundið, a.m.k. einhverjir stjórnmálamenn, með nokkra glýju af þeirri frjálshyggju sem nú tröllríður þjóðfélaginu um að þeim sem teljast eiga hvort sem það eru jarðir eða peningar skuli í auknum mæli leyfast flest. Og þær breytingar sem hér eru lagðar til lúta nánast alfarið í þá átt að auka rétt jarðareigandans til inngripa í jarðarafnot sem hingað til hafa verið umsamin með einhverjum hætti.

Ég tel mjög varhugavert að nálgast það með þessum hætti. Með því er verið að gefa þau skilaboð varðandi jarðarafnot í ábúð eða leigu að reyna eigi með beinum eða óbeinum hætti að þrengja rétt þeirra sem hafa búsetu á jörðum án þess að hafa efni á eða vilja kaupa þær.

Það mætti líka hugsa sér hina nálgunina, að rýmka þennan rétt, að gera það fýsilegra að búa á jörðum og nytja þær og nýta til skemmri eða lengri tíma án þess að þurfa að eignast þær. Það mætti líka hugsa sér þá nálgun. Ég tel að þetta eigi að vega betur saman en frv. gerir ráð fyrir. Það eigi líka að skoða ábúðarlögin og breytingar á ábúðarlögum með tilliti til þess fólks sem vill nýta jarðir og lönd án þess að eiga þau, ekki eigi að horfa nánast alfarið á eigendahliðina eins og frv. gerir ráð fyrir. Þetta vil ég í fyrsta lagi draga fram sem pólitískt atriði í málinu, stefnumarkandi atriði, að hlutur jarðareigandans er aukinn og styrktur en hlutur ábúandans er veiktur.

Annað mál sem ég vil líka draga athygli að er stefna ríkisins almennt gagnvart jörðum í ríkiseigu. Ríkið á meginhluta þeirra jarða eða þess lands sem ekki er setið af viðkomandi jarðareigendum. Mér hefði fundist að ríkið, eða hæstv. landbrh. fyrir hönd ríkisins, ætti að leggja fram skilgreinda stefnu hins opinbera í jarðeignamálum sínum, ekki bara í svona bútum í ábúðarlögum og jarðalögum. Leggja ætti fram skilgreinda stefnu um það en ekki eins og við upplifum nú, að auglýsa með að því er virðist handahófskenndum hætti jarðir til sölu, ein jörð í dag og önnur á morgun o.s.frv., án þess að það sé hluti af nokkurri heildarstefnu nema ef vera skyldi þeirri að ríkið ætti ekki að eiga jarðir, sem getur verið stefna út af fyrir sig og er vel í anda frjálshyggjustefnunnar. Ég tel á hinn bóginn að það sé í hæsta máta eðlilegt að ríkið eigi land og eigi jarðir og sé í sjálfu sér ekkert að flýta sér að losa sig við þær. Það á að hugsa til langs tíma og umgangast jarðeignir sínar og landeignir með tilliti til þess. Þarna finnst mér vanta stefnu sem ég hefði viljað að kæmi fram, a.m.k. á annan hátt en hér birtist, að reynt er að þrengja að þeim sem eru með land á leigu og búa á jarðeignum ríkisins.

Ég vil nefna eitt atriði í þessu sambandi, það er t.d. um veðhæfnina. Hvað varðar rétt og möguleika þeirra sem búa á jörðum sem þeir eiga ekki en þurfa að framkvæma og búa í haginn fyrir sinn rekstur þá skiptir veðhæfnin náttúrlega miklu máli. Hingað til hefur a.m.k. ekki verið litið svo á að veð í húseignum eða mannvirkjum á jörðum sem ekki eru eignarlönd væri mjög hátt og verið mjög erfitt að skilja á milli veða í húseignum eða mannvirkjum annars vegar og jörðum hins vegar. Ef þetta er mjög aðskilið hefur reynst erfitt að fá eðlilegar veðsetningar þannig að samkeppnisstaða þeirra sem búa á þessum jörðum getur verið verulega skert gagnvart þeim sem búa á eignarjörðum. Ég vil líka leggja áherslu á að þetta verði skoðað, að við forðumst að þrengja að þeim sem búa á jörðum sem þeir eiga ekki og skerða samkeppnisstöðu þeirra mjög umfram þá sem eru á eignarjörðum. Mér sýnist á þeim lagagreinum sem verið er að breyta, um rétt til framkvæmda og til veðsetningar, að með þeim sé verið að þrengja að veðmöguleikum þeirra sem eru að framkvæma á slíkum jörðum.

Þetta frv. kveður mjög á um nýtingu lands og hingað til hafa verið mjög skýr og ákveðin ákvæði um rétt sveitarfélaga til að grípa inn í ef talið er að land eða jörð sé ekki nýtt með þeim hætti til ábúðar eða landnot séu ekki með þeim hætti að þau þéni hagsmunum sveitarfélagsins eða samfélagsins. Þá hafa þau getað gripið inn í og skikkað landeiganda til þess að gera þar úrbætur.

Að sjálfsögðu þarf að vera þar hóf á en þó verðum við líka að fara gætilega þarna, því það geta einmitt verið fólgnar auðlindir í viðkomandi jörðum og viðkomandi landi sem eru í sjálfu sér ekki einkamál einstakra jarðareigenda, sem hafa bara takmarkaðan ævitíma hér á jörðinni. (Gripið fram í: Og sveitarstjórnir líka.) Já, og sveitarstjórnir líka, en það koma nú aðrar, þó að við fellum eina sjálfstæðissveitarstjórn þá kemur alltaf önnur betri í staðinn. En við erum stöðugt með öðrum lagasetningum að kveða skýrar á um skyldur sveitarfélaga til að skipuleggja og ákveða landnot, bæði í dreifbýli og þéttbýli, og smám saman eru í rauninni að fara burt einhver skil á milli skipulagsskyldna í dreifbýli og þéttbýli. Þetta er að verða ein heild og þar með eru líka landnotin. Mér hefði fundist að þessi lög ættu að skoðast með tilliti til annarra laga sem lúta að réttindum, skyldum og kvöðum sem aðrir aðilar bera varðandi meðferð og nýtingu á landi. Eins og þessi lög gera ráð fyrir eru þau nánast alfarið bara til þess að létta kvöðunum af landeigendunum eða draga úr kvöðunum á þeim frá því sem er í gildandi lögum. Ég tel þetta varhugavert og það eigi að fara mjög gætilega í þetta.

Sjónarmið mitt er það að auðlindir jarða, hvort sem þær eru í einkaeign eða í opinberri eigu, hvort sem þær eru í ábúð eða ekki í ábúð, eigi að vera til þess að styrkja og efla viðkomandi samfélag sem liggur að þeim og það eigi að vera forgangssjónarmið. Þess á líka að gæta að þeim auðlindum sé ekki spillt, að það sé einhver eftirlitsaðili sem passi upp á að þeim sé ekki spillt.

Í skipulagslögum er skylt að fái maður úthlutað lóð til að byggja á verði maður að hafa gert það innan ákveðins tíma, annars getur byggingarleyfið fallið úr gildi. Það ætti þess vegna að vera eins í ábúðarlögum að ef jarðareigandi nýtir ekki jörð með þeim hætti sem kveðið er á um í skipulagsskilyrðum viðkomandi sveitarstjórnar geti sveitarstjórn lagt tilsvarandi kvöð á jarðareigandann og lögð er á lóðareigandann. Að minnsta kosti má fara varlega í að draga þarna algjörlega á milli, að ef maður er kominn á einhverja jörð gildi allt aðrar reglur en gilda um lóðir.

Ég lít því svo á að það eigi að skoða þessi lög með tilliti til réttinda og skyldna sveitarfélaganna til að hafa áhrif og afskipti af verndun og nýtingu lands og auðlinda, þó svo að ekki sé kveðið á um það í ábúðarlögunum eða verið að taka þau ákvæði út úr ábúðarlögunum eigi að huga að því hvernig það geti með öðrum hætti komið inn í lagaumgjörðina þannig að það verði ekki dinglandi meira og minna í lausu lofti, eins og gæti í fljótu bragði virst í þessu frv. til ábúðarlaga.

Ég ætla ekki hafa mörg fleiri orð um frv. Ég vil þó vekja athygli hæstv. ráðherra á að þó að málið hafi komið nokkrum sinnum fyrir eða verið kynnt og verið umræða um það á búnaðarþingi er fjarri því að búnaðarþing hafi afgreitt það með einhverjum hætti. Þegar málið kom fyrir nýafstaðið búnaðarþing var því bara dreift á miðju þinginu, sem situr bara í fjóra daga, og búnaðarþingsfulltrúar töldu sig ekki hafa neinar forsendur til að taka á því efnislega á þeim skamma tíma sem þingið stóð og óskuðu eftir því í ályktun sinni að málið kæmist áfram til vinnslu af hálfu ákveðinnar milliþinganefndar sem búnaðarþing kaus til að fjalla um það mál. Mjög mikilvægt er því að ekki sé hrapað að afgreiðslu málsins þó svo að það sé sjálfsagt og nauðsynlegt að skoða einstök ákvæði þess. En ég ítreka að ástæða hefði verið til þess að sýna samt vissa íhaldssemi og athygli eða gjörhygli og skoða málið mjög vandlega áður en farið er að breyta í grundvallaratriðum þeim anda sem staðið hefur að baki ábúðarlögunum til þessa.