Ábúðarlög

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 14:34:02 (5772)

2004-03-30 14:34:02# 130. lþ. 90.3 fundur 782. mál: #A ábúðarlög# (heildarlög) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[14:34]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nýting jarðarinnar, meðferð hennar o.s.frv. fellur auðvitað undir þessi lög og önnur lög, og sveitarstjórnir hafa þar heilmiklar heimildir til inngripa. Landgræðslulögin o.s.frv. eru líka skýr í þessum efnum og þingið hefur markað þar skýra stefnu. Þetta snýst samt ekkert um það, þetta snýst fyrst og fremst um að gera þetta þannig að jarðir séu með svipuðum hætti og svo margt annað í þjóðfélaginu, eignarrétturinn á Íslandi er nokkuð skýr og hann er viðkvæmur. Ég get sett mig í þessa stöðu. Ef ég ætti jörð, sem mig eðlilega dreymir um, vildi ég auðvitað að lögin væru skýr. Ég vil auðvitað, á þeim forsendum sem ég set, leigja hv. þm. Jóni Bjarnasyni þá jörð. Ég vil ekki að hann hafi tekið af mér allan eignarréttinn á örfáum missirum. Það getur eins og ég sagði áðan komið í veg fyrir að jarðir hreinlega verði settar til ábúðar eða leigðar í dag.

Það er engin stefna hér út í loftið, hv. þingmaður. Það er hin opinbera stefna að þeir bændur sem hafa setið ríkisjarðir vel í tíu ár --- vonandi styttist sá tími ef hitt frv. verður samþykkt --- eigi kauprétt að jörðinni. Síðan koma til meðferðar þingsins og eru staðfestar í fjárlögum allar þær jarðir sem jarðeignadeildin og landbrn. vilja og telja rétt að selja. Stefnan er nokkuð skýr og ég held að hún sé líka ljós, að þessar eignir eru betur komnar í höndum einstaklinga og mikilvægt í sjálfu sér að þær fari þangað.

Svo eru auðvitað allt aðrar jarðir sem er bara mikilvægt að ríkið eigi, séu sameign þjóðarinnar. Þeirrar skoðunar er ég. Ég vil ekki selja allar jarðir ríkisins. Þær eru mikilvæg sameign, mín, þín og framtíðarinnar.