Ábúðarlög

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 15:12:41 (5785)

2004-03-30 15:12:41# 130. lþ. 90.3 fundur 782. mál: #A ábúðarlög# (heildarlög) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[15:12]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég fagna frv. sem er komið fram því það lagar stöðu sem var nánast óbærileg þar sem ábúðarlögin voru mjög einhliða og mjög takmarkandi á frjálsa samninga aðila.

Ég er á því að lög eigi að vera leiðbeinandi fyrir þá sem hafa litla lagaþekkingu, þ.e. það á að setja inn ákvæði sem gilda ef ekki er um annað samið, en svo eigi menn að hafa heimild til að semja sig frá öllu sem þeir vilja. Þá verða lögin sem minnst hamlandi í eðlilegum viðskiptum. Ég held að greinilegt sé að núgildandi lög hafa verið þannig að margar jarðir hafa ekki byggst af þeim sökum. Það er rétt hjá hæstv. landbrh. að það er mjög brýnt að jafna og laga stöðu landeigandans.

Ábúandi er fyrir mér einfaldlega bóndi, þ.e. búandi. Yfirleitt er bóndi ábúandi, en hann er jafnframt eigandi, sem betur fer. Ég ætlaði að spyrja að því, það kemur ekki fram í frv., hversu margir eru ábúendur án þess að vera eigendur jarðar? Allar þessar ríkisjarðir sem eru, ég man ekki hvort þær eru 500 eða 600, finnst mér algjör óþarfi. Mér finnst að ríkið eigi ekki að eiga jarðir heldur eigi að selja þær allar saman með góðum kjörum. Hins vegar sjáum við nýja þróun, það er fólk sem hefur gaman af að standa úti í á og gutla þar, ná í einhver kvikindi sem synda þar, aðrir þeysast um á hrossum og sumir stunda tómstundir. Fólk kaupir jarðir til að geta stundað þessa iðju sína. Það getur vel farið saman að einhver annar stundi landbúnað á viðkomandi jörð og miklu huggulegra að koma heim, eins og hæstv. síðasti ræðumaður benti á, að bæ sem er vel búinn og byggður en að koma að einhverju eyðibýli til að fara að gutla í ánni. Það er því hagur beggja að það sé ábúandi á jörðinni. Það er líka hagur landeigandans en þá þurfa lögin að vera þannig að jörðin sé ekki hálfpartinn tekin af honum ef hann leyfir einhverja ábúð. Mér finnst enn þá brydda á þessu í lögunum, það er dálítið mikið hallað á eigandann eða verið að grípa inn í það sem er óþarfi að grípa inn í.

[15:15]

Ég sakna þess sérstaklega að í þessum ábúðarlögum er ekki tekið á mjög veigamiklum hlut sem hefur valdið miklum ágreiningi, þ.e. greiðslumarkinu, grundvelli beingreiðslna. Það er ekkert tekið á því. Ef maður lítur á 38. gr. frv., sem segir að eigandinn eigi að bæta ýmislegt sem ábúandinn hefur skaffað á jörðinni, ræktun, nýbyggingar og annað slíkt, en greiðslumarkið er ekkert annað en afrakstur af starfi ábúandans en ekki landeigandans. Það finnst mér. En því er einmitt öfugt farið, greiðslumarkið fer til landeigandans, t.d. ríkisins sem á einhverja ríkisjörð, þó að bóndinn hafi með ævistarfi sínu komið þarna upp sauðfé og búið til þessi réttindi sem núna eru allt í einu orðin mjög mikils virði, m.a.s. meira virði en jörðin sjálf. En það er ekki tekið á þessu í frv.

Ef maður aftur á móti gluggar í frv. sem við ræðum hér á eftir, um jarðalög, stendur þar í 13. gr., með leyfi forseta:

,,Um eignarhald, meðferð, nýtingu og heimild til framsals á greiðslumarki lögbýla fer eftir ákvæðum laga nr. 99/1993.``

Ég er engu nær, herra forseti.

Ef maður les síðan skýringu við þetta ákvæði, 13. gr., stendur: ,,Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.`` Þá hlýt ég bara að vera svona takmarkaður, það getur ekki annað verið. Auðvitað getur maður flett upp í heilum lögum til að finna út úr því en væri ekki eðlilegra að segja bara hreinlega að landeigandinn eigi þessi réttindi í dag? Þannig hafa dómar fallið og því um líkt þó að mér finnist það mjög óeðlilegt og það stangist á við hugsunina í 38. gr.

Svo er þarna stílbrjótur eða rökleysa, finnst mér. Í 2. gr. stendur:

,,Ábúandi merkir í lögum þessum einstakling sem hefur afnotarétt af jörð`` o.s.frv. Þetta er sem sagt einstaklingur.

Síðan er öll 4. gr. undirlögð, þar stendur:

,,Ábúendur samkvæmt lögum þessum geta verið einstaklingar.``

Þá segir rökfræðin mér að ábúandi geti verið einstaklingur en hann getur líka verið hlutafélag, sveitarfélag, lífeyrissjóður o.s.frv.

Í skýringum með þessari 4. gr. sem er ekkert annað en þetta stendur, með leyfi forseta:

,,Hér er að finna ákvæði um hverjir geti verið ábúendur samkvæmt frumvarpinu og tekið af skarið um að einungis einstaklingar geti verið ábúendur.``

Það stendur ekkert í ákvæðinu. Þess vegna þyrfti að breyta þessu ákvæði eða bara hreinlega fella það niður því að það stendur í skilgreiningunni: Ábúendur eru einstaklingar. Það ætti að standa: Ábúendur samkvæmt lögum þessum geta eingöngu verið einstaklingar. Svo geta menn rökrætt hvort það sé eðlilegt. Bændur sem jafnframt eru ábúendur á eignarjörðum sínum hafa mjög margir stofnað hlutafélög um reksturinn. Hver skyldi þá vera ábúandinn? Er það hlutafélagið eða er það bóndinn sjálfur? Ég veit ekki betur en að þessi hlutafélög fari með allan rétt og allar skyldur á því búi og kannski eru menn með þessu ákvæði að eyðileggja fyrir bændum þann möguleika að setja reksturinn undir hlutafélag. Ég vil að hv. landbn. kanni það mjög ítarlega og passi sig á því að skemma ekki það sem bændur hafa verið að byggja upp til þess að njóta ýmiss konar hlunninda skattalaga, mjög eðlilegra hlunninda, þeirra að reka jarðirnar sem hlutafélög.

Síðan er smálapsus í 20. gr. Þar stendur að framsal og veðsetning ábúðarréttar sé óheimil.

,,Ábúanda er þó heimilt að leyfa not landsnytja til beitar og slægna án leyfis jarðareiganda. Slík ráðstöfun af hálfu ábúanda gildir aðeins í eitt ár í einu.``

En það þarf að gæta þess að hann ráðstafi ekki slægjunum fram yfir ábúðartímann. Það þarf þá að segja ,,ekki lengur en til loka ábúðartímans``. Þennan fyrirvara þarf að hafa alveg sérstaklega vegna þess að í 29. gr. stendur að óheimilt sé að semja um að ábúendur taki að sér meiri skyldur eða öðlist minni réttindi ,,nema ákvæði laganna hafi að geyma sérstaka heimild þess efnis``, sem sagt lögin eru ófrávíkjanleg að mjög mörgu leyti.

Þessu mundi ég vilja snúa við. Ég mundi vilja hafa þessi lög leiðbeinandi en það mætti semja sig að þeim öllum. Þá gera menn nefnilega þessi samskipti lipur og þá eru miklu meiri möguleikar til þess að tómstundaeigendur séu tilbúnir til að leyfa einhverjum ábúð á jörðinni til þess að hafa þar lömb í haga og hross á beit og kýr sem er miklu huggulegra þegar menn standa úti í ánni við að veiða silunginn eða laxinn.

Þessi lög yrðu þó greinilega mjög mikil bót og framför frá því sem hefur verið. Gildandi lög eru hin argasta forneskja og bændum í raun mjög andsnúin. Ég fagna því frv.