Jarðalög

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 16:01:33 (5793)

2004-03-30 16:01:33# 130. lþ. 90.4 fundur 783. mál: #A jarðalög# (heildarlög) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[16:01]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir ágæta ræðu og málefnalega. Hann gerir ekki margar athugasemdir en lætur að því liggja að lítil virðing sé borin fyrir því að vernda land til landbúnaðar. Það er langt frá því. Frumvarpið geymir sterk ákvæði um það. Við getum áreiðanlega verið sammála um að breytingar í landbúnaði, stærri bú og færri og önnur landnot hafa kallað á nýja atvinnustarfsemi sem er mjög mikilvæg í sveitum landsins og byggðinni í landinu og sjálfsagt að verða við því kalli.

Ég hef lagt mikla áherslu á að menn þurfi að varðveita jarðirnar og ræktunarlöndin og við vitum aldrei hvað framtíðin þarf í þeim efnum. Hér eru alveg skýr ákvæði hjá okkur eins og í Danmörku og Noregi. Hv. þm. lét liggja að því að við værum á einhverri frjálshyggjuferð að gefa allt eftir og ætluðum ekki að taka neitt tillit til þess. En þó hér sé kannski ekki sama þörf til landbúnaðarnota og við eigum stórt land og víðlent er það svo víða um heim einnig, en hér er mikil áhersla lögð á að vernda land sem nýtanlegt er til landbúnaðar og matvælaframleiðslu. Enn fremur er landbúnaður í örri þróun sem ekki sér fyrir endann á og því hyggilegt að þess sé gætt að nægjanlegt land sé til staðar fyrir landbúnaðarstarfsemi framtíðarinnar. Ég vil leggja áherslu á það og er sammála hv. þm. að mikilvægt er að hér sé rými fyrir sterkan landbúnað og mikla matvælaframleiðslu því við eigum gott landbúnaðarland og höfum eitthvert besta land til matvælaframleiðslu, vegna þess að hér er móðir jörð hrein og náttúran ekki svo menguð sem hún er í mörgum nálægum löndum okkar. Þessa auðlind eigum við því að varðveita. Þar hygg ég að við séum sammála og frv. geymir þau viðhorf áfram að svo skuli gert samkvæmt lögum.