Jarðalög

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 16:03:55 (5794)

2004-03-30 16:03:55# 130. lþ. 90.4 fundur 783. mál: #A jarðalög# (heildarlög) frv., JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[16:03]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. landbrh. kemst alltaf svo óskaplega fallega að orði, sem er mjög gott og við fögnum því, en ég vil líka sjá það á prenti. Það þarf að komast á prent.

Ég tek undir með ráðherranum að við eigum mikla framtíð sem matvælaframleiðsluland. Þess vegna verðum við að gæta þess í tímabundnum ákafa okkar að verða við einhverju í því frjálshyggjuóráði sem ríður yfir þjóðina að láta ekki jarðirnar fara úr landbúnaðarnotkun eða í óvissa notkun. Við eigum að standa vörð um þær, því við vitum ekki hvenær við þurfum að kalla aftur til þeirra þó við þurfum ekki brýnt á þeim að halda í dag. Fyrir utan landbúnaðarnotin, eins og t.d. ferðaþjónustan, sem er tvímælalaust það landbúnaðarnot sem er hvað mest vaxandi í dag, er ekki gott að vera búin að missa ráðstöfun á landinu í hendur aðila sem eru andvígir því að samfélagið geti haft aðgang að því. Við þekkjum þetta með keðjurnar á veginum. Um leið og einkaaðilar eru búnir að kaupa jörðina er komin keðja á veginn og sagt að þetta sé einkavegur og einkaland. Fyrir sveitarfélög sem eru að gera áætlun um nýtingu auðlinda sinna eru orðnar allt of margar keðjur sem takmarka möguleika íbúanna á viðkomandi svæðum til að njóta og nýta auðlindir sínar, bæði í eigin þágu og í atvinnuskyni. Þess vegna tel ég að fara eigi mjög varlega í breytingar sem lúta að því að skerða rétt almennings til þess að hafa áhrif á land og landnotkun.