Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 16:35:16 (5805)

2004-03-30 16:35:16# 130. lþ. 90.5 fundur 786. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (afnám gjalda) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[16:35]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Hæstv. sjútvrh. var fljótur að mæla fyrir þessu frumvarpi. Af því gætu menn ráðið að málið sem hér er til umræðu sé ekki svo óskaplega stórt. Hins vegar er það staðfesting á því að ríkisstjórnin sem nú situr ætlar að halda sig við ákvarðanir sínar um sátt í sjávarútvegsmálum, sem svo var kölluð á sínum tíma.

Mér finnst þó að hæstv. sjútvrh. þurfi að útskýra ýmislegt fyrir Alþingi og þjóðinni í tengslum við frumvörp sem hér liggja fyrir, um Þróunarsjóðinn og gjöld sjávarútvegsins til hins opinbera. Mér fyndist t.d. full ástæða til að hæstv. ráðherra gerði tilraun til að setja fram hver munurinn er á gjöldum sem útgerðin greiðir eða hefur verið að greiða til hins opinbera samkvæmt lögum sem eru í gildi og því gjaldi sem útgerðin mun á þessu ári greiða eftir þeim frumvörpum sem hér eru lögð fram og með veiðigjaldinu. Mér þætti fróðlegt að sjá í hverju þær dýru álögur á sjávarútveginn felast sem forustumenn LÍÚ hafa kveinað undan að undanförnu þegar þeir hafa nánast krafist þess að hið svokallaða veiðigjald yrði lagt af. Ekki mundi ég nú gráta það að menn legðu þetta veiðigjald af ef við tæki leið sem væri meiri sátt um en sú sem ríkisstjórnin markaði með upptöku þess. Það er ekki minna ósætti um sjávarútvegsmálin í dag en verið hefur. Þegar rætt var um gjaldtökumálin á sínum tíma þá minnir mig að rætt hafi verið um að útgerðin mundi greiða í kringum milljarð á þessu ári þegar búið væri að leggja saman og draga frá þau gjöld sem útgerðin á að greiða samkvæmt þeim lögum sem eru í gildi og þær álögur sem koma til vegna veiðigjaldsins.

Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra geri okkur grein fyrir þessu. Samkvæmt lögum er gert ráð fyrir því að ráðherra ákveði fyrir 15. júlí hvert veiðigjaldið á að vera sem kemur til álagningar á fiskveiðiárinu sem hefst 1. september. Það hlýtur þess vegna að vera farið að huga að þessum málum í ráðuneytinu. Upplýsingar um þetta hljóta því að vera til staðar.

Mig langar til að ræða aðeins um sjávarútvegsmál í tengslum við þessa umræðu. Sú ríkisstjórn sem nú situr hefur þrátt fyrir ósamstöðu, a.m.k. í öðrum stjórnarflokknum, ákveðið að reyna að festa í sessi eignarhaldið á veiðiréttinum samkvæmt lögunum. Það var gert með þessu veiðigjaldsmáli sem við höfum oft rætt um.

Ég hef tekið eftir því að hæstv. ráðherra virðist hafa aðrar skoðanir á þessu máli þegar hann fer út fyrir landsteinana. Það var í einhverjum fjölmiðli borið fyrir ráðherrann hvernig honum litist á hugmyndir Breta, um að taka upp sams konar kerfi og hér. Hæstv. ráðherra var klár á því að þeir mundu aldrei taka upp það kerfi, þá gætu Spánverjar keypt upp veiðirétt á miðum Breta og það yrði aldrei niðurstaðan. Mér finnst þetta skynsamlegt hjá hæstv. ráðherra. Ég er hins vegar á þeirri skoðun að skynsemin ætti líka að ríkja á heimaslóð. Mér finnst ágætt að sjá hv. þm. Kristin H. Gunnarsson koma í gættina og helst vildi ég sjá hv. þm. Einar Kristin Guðfinnsson, sem hefur haft sig mjög í frammi í sjávarútvegsumræðu, formann þingflokks Sjálfstfl. um þessar mundir.

Það er ekki að ástæðulausu að ég nefni þessa tvo ágætu menn. Þeir hafa báðir skrifað um sjávarútvegsmál í Bæjarins besta á Ísafirði undanfarna daga. Mér finnst sem skrif þeirra lýsi nokkuð ástandinu sem er í stjórnarflokkunum hvað varðar afstöðuna til sjávarútvegsmála.

Mig langar fyrst að grípa niður, með leyfi forseta, í grein sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, varaformaður sjávarútvegsnefndar Alþingis, skrifar í Bæjarins besta fyrir einum eða tveimur dögum. Þar segir hv. þm. í upphafi greinar sinnar, með leyfi forseta:

,,Ekkert lát er á umræðunni um sjávarútveginn sem verið hefur í mörg ár. Hún hefur verið misjafnlega kraftmikil en jafnan gosið upp á nýjan leik þegar menn hafa talið að málinu væri lokið í kjölfar einhverrar pólitískrar niðurstöðu á Alþingi. Þannig var fyrir síðustu alþingiskosningar. Pólitískir greiningarmenn, sjálfskipaðir snjallhugar og skjálfandi hagsmunaaðilar luku upp einum munni í aðdraganda kosninganna og tilkynntu að málinu væri lokið.``

Þetta segir hv. þm. í upphafi greinar sinnar en annars staðar í grein sinni segir hann, undir millifyrirsögninni Kjósendur vildu en þorðu ekki:

,,Stjórnarflokkarnir áttu í vök að verjast í kosningabaráttunni, það verður að viðurkennast. En segja má að þeir hafi bjargað sér fyrir horn. Annars vegar með því að boða tilteknar breytingar á kerfinu, svo sem línuívilnun og aukinn byggðakvóta og svo hins vegar komu valdir útgerðarmenn til hjálpar. Eru þar minnisstæðastir forystumenn stórra fyrirtækja eins og Brims, Vinnslustöðvarinnar og Þorbjarnarins sem lögðu sig fram um að hræða líftóruna úr starfsfólki sínu með útleggingum sínum á því sem gerast mundi ef hugmyndir stjórnarandstöðuflokkanna um breytingar næðu fram að ganga. Hvort tveggja bar árangur og stjórnarflokkarnir héldu þingmeirihluta sínum.``

Þetta segir hv. varaformaður sjávarútvegsnefndar Alþingis í nýlegri grein. (KLM: Bragð er að þá barnið finnur.) Á öðrum stað fer hann yfir fyrningarleiðina. Í því samhengi lýsir hann þeirri leið sem stjórnarflokkarnir fóru í málinu. Hann kallar þá leið nauðungarleið.

Síðan kemur enn ein fyrirsögnin, þ.e. Illgresið burt. Með leyfi hæstv. forseta, þá vil ég lesa þann hluta greinarinnar sem er um veiðigjaldið, það sem við erum hér að ræða um. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

,,Niðurstaðan er þá að óbreytt kerfi er ekki skömminni skárra og enginn friður verður til frambúðar með því. Ólgan í sjávarútvegi mun halda áfram þar til að breytingar verða gerðar sem taka á orsökum ólgunnar. Það er verkefni stjórnarflokkanna að hafa forgöngu um það. Þeir hafa fengið annað tækifæri til þess að takast á við það verkefni og verða að leysa það á þessu kjörtímabili. Óvarlegt er að gera ráð fyrir því að kjósendur sýni frekari biðlund. Þetta er stærra mál en svo að lausnin felist í línuívilnun og byggðakvótum. Þær aðgerðir eru til hjálpar, en eru ekki meira en verkjalyf við vondum hausverk. Það þarf almennar breytingar á leikreglum kerfisins. Þegar sjálfir höfuðpáfar kvótakerfisins á Akureyri eru farnir að reiðast vegna afleiðinga kerfisins og predika nú samfélagslega ábyrgð bankanna er orðið tímabært að safna liði til þess að uppræta illgresið sem þrífst í skjóli kvótakerfisins. Það verður ekki falið með aflátsbréfi veiðigjaldsins.``

Þetta er dómur hv. þm., Kristins Gunnarssonar, um kerfið sem hann rétti upp hönd til stuðnings við á hv. Alþingi fyrir kosningar.

[16:45]

Fleiri Vestfirðingar hafa haft sig í frammi um sjávarútvegsmálin í gegnum tíðina. Þar hafa verið fremstir í flokki hv. þm. Einar K. Guðfinnsson og Einar Oddur Kristjánsson. Öll þjóðin, a.m.k. ég og allir sem ég talaði við og vissi um héldu að þessir tveir hv. þm. væru á móti þessu fyrirkomulagi í gegnum langa tíð. Þannig töluðu þeir ævinlega eða maður skildi þá svo. En það hafa orðið einhver umskipti á bæjunum því að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson skrifar núna í Bæjarins besta grein sem er afskaplega áhugaverð og ætti eiginlega að vera skyldulesning fyrir alla, finnst mér, sem langar til að fylgjast með í sjávarútvegsumræðunni. Mig langar, með leyfi hæstv. forseta, að vitna í þetta greinarkorn hv. þm. þar stendur á einum stað ,,Fyrningarleiðinni hafnað`` --- það er millifyrirsögn í þessari grein hv. þm.:

,,Það er öllum ljóst að kröfunni um fyrningarleið í sjávarútvegi var hafnað í alþingiskosningunum.`` --- segir hv. þm. --- ,,Þeir sem báru hana fram af mestum þunga höfðu ekki erindi sem erfiði. Ómótmælanlega glímdu þeir við mikinn andbyr í sjávarbyggðunum. Þeim tókst einfaldlega ekki að útskýra það fyrir íbúum sjávarbyggðanna að afskrift á veiðirétti sem menn höfðu aflað sér með striti og baráttu yrði þeim, fjölskyldum þeirra eða íbúum byggðanna til góða. Fræg er ferðin af helstu oddvitum Samfylkingarinnar í mína heimabyggð þar sem málstaður fyrningarleiðarinnar var rekinn lóðrétt ofan í kok á þeim af starfandi sjómönnum og útgerðarmönnum smábáta.``

Ég var á þessum fundi og ekki upplifði ég þetta svona. Þarna voru að vísu mættir menn sem áttu svolítil kvótaréttindi og voru hræddir um þau og vildu fá útskýringar á því hvernig þetta mundi virka fyrir þá. En ég er hræddur um að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hafi fengið varmari viðtökur á ýmsum fundum um sjávarútvegsmál en við fengum þarna, a.m.k. kvarta ég ekki undan þeim fundi. Hverjir voru í raun og veru að mótmæla þarna? Það voru þeir sem höfðu svona sæmilegan rétt. En þeir sem búa við það að eiga heima í þessum byggðarlögum og eiga enga möguleika á því að stofna til nýrrar útgerðar vegna þess að nýliðun er óhugsandi í þessu kerfi hlustuðu auðvitað grannt á það sem við vorum að segja þar.

Og svo segir hv. þm. áfram, með leyfi forseta:

,,Sjónum beint að byggðaþróuninni. --- En um leið og fyrningarleiðinni var hafnað beindust sjónir manna að stöðu sjávarbyggðanna, öryggisleysinu sem verður þegar ótti skapast við að aflaheimildirnar hverfi og að veiðirétturinn verði afnuminn. Það hefur orðið hlutskipti margra.`` --- Undir hvaða kerfi? Undir hvaða kerfi hefur þetta hlutskipti orðið hjá mörgum? Nú, auðvitað því eignarhaldskerfi sem er í gildi. --- ,,Ekki þarf að nefna dæmin,`` segir hv. þm., ,,þau eru í fersku minni fólksins. Nauðvörnin var eins og menn vita oft á tíðum veiðikerfi smábátanna. Þess vegna hefur verið barist svona hart fyrir veiðirétti þeirra.``

Þarna vísar hv. þm. til baráttu þeirra sjálfra fyrir smábátakerfið. Og að það væri farið öðruvísi með veiðiréttindi hvað varðar útgerð smábáta en aðra hluta flotans. Það er nákvæmlega það sem hefur verið notað til þess að reyna að halda í einhvers konar möguleika til endurnýjunar og nýliðunar í sjávarútvegi á undanförnum árum. Ekki hef ég mælt með þessu fyrirkomulagi. En maður hefur svo sem skilið það stundum að menn skuli hafa valið þann kostinn að einhvers staðar væri möguleiki til þess að nýliðun yrði.

Og svo segir í einni fyrirsögninni hjá hv. þm., með leyfi forseta:

,,Sjávarútvegur á landsbyggðinni, stoðgreinarnar í Reykjavík. --- Sannleikurinn er sá að afar illa gengur að byggja upp aðrar atvinnugreinar, opinber þjónusta safnast á höfuðborgarsvæðið og svo nærtækt dæmi sé tekið þá eru hér um bil allar opinberar stoðgreinar sjávarútvegsins fyrir sunnan og maður verður ekki var við mikinn opinberan áhuga hagsmunaaðila að breyta því. Þess vegna er ekki við öðru að búast en að menn reyni að verjast í þeim vígum sem eru til staðar.``

Og svona er þetta allt saman. Öll þessi grein er uppfull af þeim vandræðagangi og vesöld sem kerfið kallar yfir landsbyggðina en samt skín það í gegn að hv. þm. hefur gengið til liðs við það kerfi sem hann barðist, að allir héldu, gegn.

Ég verð að segja alveg eins og er, hæstv. forseti, að það kom mér ýmislegt á óvart í þeim tveimur greinum þar sem þeir hv. þm. sem ég hef verið að fjalla hér um létu í ljós skoðanir sínar. Síðasti parsusinn í grein hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar hefur millifyrirsögnina ,,30 milljarða herkostnaður``. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Athyglisvert er einnig að allir sem vettlingi geta valdið reyna nú að vera höndum fljótari að verja fyrirtæki sín. Þau eru afskráð úr Kauphöllinni til þess að koma í veg fyrir óvinveitta yfirtöku. Mönnum er ljóst að fagurgala sem var óaðskiljanlegur hluti sameininga í sjávarútvegi er varlegt að treysta. Sporin úr fortíðinni hræða einfaldlega. Þetta er hins vegar dýrkeypt vörn. Ætli skuldsetning sjávarútvegsins aukist ekki um a.m.k. 30 milljarða vegna uppstokkunarinnar og vegna þess að menn eru að verja hagsmuni fyrirtækja sinna og byggðanna. Það er mikill herkostnaður. Þetta er mjög mikilvægur lærdómur sem við drögum af þessari umræðu. Hún varpaði að mörgu leyti nýju ljósi á þá umræðu sem farið hefur fram um sjávarútveginn og byggðirnar og brýnir okkur í því að reyna að treysta þær stoðir sem eru undir byggðunum og að fjölga þeim svo menn séu ekki jafnháðir sjávarútveginum og verið hefur. Það er ástæða til þess að hvetja hagsmunaaðila til dáða með okkur öðrum.`` --- stendur þarna í lokin.

Og hvaða dáða er verið að hvetja menn til þess að fremja? Þessi grein hv. þm. ber vott um það að hann er að lýsa vandamálunum sem hafa dunið yfir byggðirnar vegna kerfisins sem hann hefur varið og rétt upp hendur með hér á Alþingi og hvetur menn svo til dáða til þess að vinna með honum. Að hverju? Að því að styrkja og efla kerfið? Að halda því áfram sem menn hafa verið að gera hér?

Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst einhvern veginn að í vetur höfum við ekki farið yfir þessi mál með þeim hætti sem þyrfti. Mér finnst ástæða til þess að menn fari kannski fáeinum orðum á hv. Alþingi um þann feril sem orðið hefur síðan menn tóku þá ákvörðun í hæstv. ríkisstjórn og stjórnarliðinu að fara veiðigjaldsleiðina. Við sem vorum á móti því, hæstv. forseti, gerðum úrslitatilraun í hinni svokölluðu sáttanefnd til þess að leiða starf hennar inn á sáttabraut. Og ég segi eins og er að ég varð fyrir mjög miklum vonbrigðum með þá niðurstöðu sem þar varð og hvernig hana bar að, vegna þess að mér var það alveg ljóst í ferli málsins að það var vilji í stjórnarflokkunum til þess að leita sátta á tímabili í starfi þeirrar nefndar. Og undir forustu hv. þm. sem þá var hér, Vilhjálms Egilssonar, var farið inn á braut sem virtist benda til þess að menn gætu náð einhvers konar samkomulagi. En þegar minnst varði, og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson var staddur á Ítalíu þegar það var, var snögglega haldinn fundur í nefndinni og öllu slúffað sem þar hafði verið uppi á borðum. Það var mjög merkilegt og ætti kannski að vera rannsóknarefni hvernig á því stóð. Ég hef ekki tíma til þess að fara yfir það í þessari ræðu.