Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 16:57:09 (5806)

2004-03-30 16:57:09# 130. lþ. 90.5 fundur 786. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (afnám gjalda) frv., JGunn
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[16:57]

Jón Gunnarsson:

Frú forseti. Við ræðum hér frv. til laga um breytingu á lögum nr. 92 frá 24. maí 1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, með síðari breytingum. Eins og fram kemur í athugasemdum við frv. --- það er nú hvorki stórt né mikið --- kemur fram að þessar breytingar eiga rætur að rekja til þess að á árinu 2002 samþykkti Alþingi breytingar á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, sem fela í sér að frá og með 1. september 2004 verður lagt sérstakt veiðigjald á eigendur skipa fyrir úthlutaðar veiðiheimildir eða landaðan afla þegar ekki er um úthlutun að ræða.

Í raun er hæstv. sjútvrh. að leggja fram tvö systurfrumvörp vegna þessarar breytingar, annars vegar frv. sem ég nefndi hér, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, og síðar á dagskránni frv. til laga um breytingu á lögum nr. 33 frá 5. maí 2000, um veiðieftirlitsgjald, með síðari breytingum, sem að mestu kemur til vegna sömu breytinga á lögum um stjórn fiskveiða. Þetta eru í raun einfaldar breytingar sem nauðsynlegar eru til að mæta upptöku veiðigjaldsins eða auðlindagjaldsins svokallaða sem samþykkt var á árinu 2002 og sett var inn í lögin um stjórn fiskveiða.

Veiðieftirlitsgjaldið og gjald til Þróunarsjóðs sjávarútvegsins eru um 985 millj. á þessu ári samkvæmt fjárlögum sem búið er að samþykkja, en koma til með að lækka samkvæmt þeim lögum sem hér er verið að leggja til um 780 millj. vegna þess hve stuttur tími líður þangað til veiðigjaldið kemur og tekur við.

Veiðigjaldið sem samþykkt var með breytingu á lögum um stjórn fiskveiða á árinu 2002 er breytilegt gjald, þ.e. við getum ekki enn vitað hvert gjaldið endanlega verður. Það mun byggjast á aflaverðmæti á lönduðum afla á tímabilinu 1. maí í fyrra, 1. maí 2003, til 30. apríl nk. Það er því rúmur mánuður eftir af tímabilinu sem lagt verður til grundvallar þegar farið verður að reikna út þetta veiðigjald og eðlilegt að spurt sé hvort ekki sé nú þegar til einhver áætlun af hálfu sjútvrn. um hvert veiðigjaldið verði á þorskígildiskíló á næsta fiskveiðiári eða hvert heildargjaldið gæti orðið.

Ég geri mér að sjálfsögðu fulla grein fyrir því að ekki er hægt að segja endanlega til um hver sú upphæð verður þar sem ekki liggur fyrir það endanlega aflaverðmæti sem lagt verður til grundvallar á útreikningi og að sjálfsögðu er einnig óvissa enn þá um hvert útgefið heildaraflamark verður á næsta fiskveiðiári. En einhver nálgunarútreikningur hlýtur þó að hafa verið gerður eða framkvæmdur í sjútvrn.

[17:00]

Ef við veltum aðeins fyrir okkur á hverju veiðigjaldið byggir sem kemur í staðinn fyrir gjöldin sem nú er verið að leggja niður, er byrjað á aflaverðmætinu á því tímabili sem ég var að nefna en síðan skal draga frá því ákveðnar upphæðir sem fylgja rekstri fiskiskipa. Samkvæmt lögunum á að draga reiknaðan olíukostnað upp á 6.218 millj. kr. frá aflaverðmætinu. Þetta er tala sem sett var niður í lögunum, en hún á að taka breytingum miðað við meðaltal á skráðu verði á gasolíu á Rotterdammarkaði frá meðaltali ársins 2000 til meðaltals þess tímabils sem notað er sem grunnur undir útreikning á veiðigjaldi. Þetta verður þá annaðhvort eitthvað minna eða meira en 6.218 millj. kr. sem dragast frá aflaverðmætinu sem um ræðir.

Síðan skal draga frá reiknaðan annan rekstrarkostnað. Fjárhæðin í lögunum er 17.568 millj. kr. en þessi grunnur á að taka breytingum miðað við vísitölu neysluverðs frá meðaltali ársins 2000 til þess tímabils sem lagt er til grundvallar í útreikningi veiðigjalds.

Að lokum skal draga frá aflaverðmæti reiknaðan launakostnað sem miðast við 39,8% af aflaverðmæti eins og það er reiknað af aflaverðmætinu sem lagt er til grundvallar.

Þetta eru í sjálfu sér ekki einfaldir útreikningar og þó ekki svo flóknir. Það sem þeir segja er að við vitum ekki hvert veiðigjaldið verður sem kemur í staðinn fyrir þau gjöld sem nú er verið að leggja niður.

Þegar búið er að draga þennan kostnað frá aflaverðmætinu skal reikna þetta yfir á þorskígildi miðað við þorskígildisstuðla á næsta fiskveiðiári og veiðigjald komandi fiskveiðiárs skal síðan reiknað sem 6% af niðurstöðu þess sem þar kemur út.

Í lögunum var gert ráð fyrir 9,5% en ekki 6%, en ákvæði til bráðabirgða kveður á um að í upphafi, þ.e. á þessu ári, verði veiðigjaldið einungis 6%. Það kemur síðan til með að taka breytingum: Verður 6,6% árið 2005, 7,3% árið 2006, 8% árið 2007, 8,7% árið 2008 og endar í 9,5% árið 2009. Það er því í raun ekki fyrr en á árinu 2009 sem veiðigjaldið verður 9,5% af útreiknaða stofninum sem gert er ráð fyrir.

Í fyrstu tillögum sem fram komu frá auðlindanefnd, sem sett var á til að reyna að koma á einhverri sátt í sjávarútvegi sem enn hefur ekki tekist að finna, var gert ráð fyrir að veiðigjaldið skiptist í tvennt. Annars vegar yrði um fast gjald að ræða sem dygði fyrir þeim beina kostnaði sem tengdist umsýslu og eftirliti með sjávarútveginum. Þegar frv. var lagt fram var beini kostnaðurinn metinn á 1.490--1.540 millj. kr. Hins vegar lagði auðlindanefndin til að það yrði breytilegt afkomutengt gjald til viðbótar hinu fasta. Nefndin lagði til að það yrði einhvers konar fasti í kerfinu þannig að menn vissu þó að út úr veiðigjaldinu næðu þeir einhverri lágmarksupphæð sem dygði fyrir umsýslunni og eftirlitinu sem tengist sjávarútveginum, en síðan væri afkomutengt gjald sem væri í raun og veru afgjald sem þeir sem væru að nýta auðlindina greiddu þjóðfélaginu eftir því hvernig gengi hverju sinni.

Árið 2002 var reynt að meta hvert veiðigjaldið gæti orðið miðað við þær forsendur sem menn þekktu best þá og í kostnaðarmati sem fylgdi frv. þar sem veiðigjaldið var sett fram var gert ráð fyrir að í ár, 2004, gæti gjaldið numið um 1,1--1,2 milljörðum kr. Í raun var heildargjaldið sem þarna var verið að meta talsvert lægra en eingöngu fastagjaldið sem auðlindanefndin var að leggja til að sett yrði á. Þegar gjaldið væri komið í 9,5% eins og það kemur til með að verða hæst á árinu 2009, er gert ráð fyrir 1,8--2,1 milljarði kr. í tekjur af gjaldinu til ríkisins.

Við í sjútvn. hljótum að þurfa að skoða það vel, frú forseti, hvers sé að vænta með upptöku á hinu nýja veiðigjaldi og bera saman þær tekjur sem nú er verið að leggja til að falli niður, vegna þess að tilgangurinn með breytingunni var ekki sá að fara að minnka það sem sjávarútvegurinn greiðir upp í umsýslu og eftirlitskostnað með sjálfum sér. Við hljótum að verða að tryggja að þær tekjur sem koma beint frá sjávarútveginum upp í þennan kostnað, eða þessi gjöld, dugi til að mæta honum alla vega að því leyti sem þau hafa gert miðað við núgildandi lög.

Það er erfitt að ræða þessi tvö frumvörp sitt í hvoru lagi og eiginlega nauðsynlegt að ræða þau saman og fara með þessar tölur eins og ég hef gert, því bæði veiðieftirlitsgjaldið og þróunarsjóðsgjaldið hangir saman.

En fyrst og fremst langar mig til að vita, frú forseti, frá hæstv. sjútvrh. hvort búið sé að reyna að nálgast það eitthvað betur en gert var á árinu 2002 hvert gjaldið gæti orðið á núverandi ári.