Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 17:32:59 (5809)

2004-03-30 17:32:59# 130. lþ. 90.5 fundur 786. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (afnám gjalda) frv., SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[17:32]

Sigurjón Þórðarson:

Frú forseti. Í fyrri ræðu minni bar ég upp nokkrar spurningar en ég sá ekki að hæstv. ráðherra gerði sig líklegan til að svara þeim þannig að þær hafa kannski farið fram hjá honum. Ég ákvað því til að tryggja það að þær færu ekki alveg fram hjá honum og í þeirri von að hann svari þeim að spyrja, en mig minnir að fyrsta spurningin hafi verið hvort hann sjái fyrir sér að veiðileyfagjaldið sem sett verði á, verði eitthvað hærra en það gjald sem hann er að fella niður núna. Það er mjög mikilvægt þegar við tökum afstöðu til málsins að við fáum það á hreint, vegna þess að ég lít svo á að þetta sé liður í því að festa kvótakerfið í sessi, og ef svo er ekki er rétt að hæstv. ráðherra leiðrétti mig með það. Er þetta kannski liður í því að taka upp sóknarkerfi sem skilar meiri árangri? Það væri mjög áhugavert að fá að heyra það en hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson rakti hér að það kerfi hefur skilað mun betri árangri í Færeyjum og þar eru stofnar í mun betra ásigkomulagi en hér.

Ef þetta er til að festa kerfið í sessi væri áhugavert að fá að vita hvort sú vinna sem ríkisstjórninni var falið að vinna hafi engu skilað varðandi úttekt á færeyska kerfinu. Var það mat sem ríkisstjórnin lagði á það neikvætt? Það væri mjög fróðlegt að fá það fram í umræðunni, vegna þess að við erum sannfærðir um það í Frjálsl. að þar gæti verið svarið við því að stjórna á fiskveiðum með miklu árangursríkari hætti, en eins og ég rakti í fyrri ræðu minni hefur kvótakerfið ekki skilað neinu.