Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 17:48:02 (5811)

2004-03-30 17:48:02# 130. lþ. 90.5 fundur 786. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (afnám gjalda) frv., MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[17:48]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Á dauða mínum átti ég von en ekki því að ég ætti eftir að standa hér og ætla að fara að halda fyrirlestur fyrir hæstv. sjútvrh. um það hvernig maður ætlar að stjórna fiskveiðum. Málið er það nefnilega að það er ekkert mál að stjórna fiskveiðum þó að maður sé í sóknarstýringu, það er ekki nokkur vandi. Það er hægt að gera það á margan hátt, það er hægt að stunda svokallaða veiðarfærastýringu sem Færeyingar hafa gert með góðum árangri, maður getur takmarkað fjölda báta í hverjum flokki og maður getur lokað svæðum. Þannig er hægt að gera það, þannig er hægt að stjórna fiskveiðum.

Ég tel, hæstv. forseti, að Færeyingar stundi í raun og veru miklu markvissari fiskveiðistjórn en við Íslendingar. Vegna hvers? Jú, vegna þess að þeir nota allar þessar þrjár breytur, veiðarfærastýringu, fjölda báta og síðan svæðalokanir. Það gera þeir með mjög góðum árangri.

Svo er annað og það er að þegar maður er með sóknarmark er ekkert brottkast og ekkert kvótasvindl. Allur afli sem veiddur er úti á miðunum berst á land. Þegar maður stundar fiskveiðar og fiskveiðistjórn er það atriði númer eitt, tvö og þrjú að maður viti hvað flotinn er að veiða á hverjum tíma. Ef maður veit það getur maður brugðist við og stjórnað veiðunum. Þetta er lykilatriði í fiskveiðistjórn.

Ég hefði haldið að menn við Skúlagötu 4 vissu þetta. Það kemur mér á óvart að svo virðist ekki vera. Þetta finnst mér alveg stórundarlegt. Það er nefnilega hægt að stjórna fiskveiðum í sóknarmarki, það er ekki nokkurt mál.

Hæstv. sjútvrh. sagði að færeyska kerfið væri svipað og það íslenska, og það væri lokað. Á vissan hátt er þetta rétt en þetta er líka rangt. Færeyska kerfið hefur það fram yfir íslenska kerfið að það er opið, það er opið neðan frá. Neðst í kerfinu ríkir mikið frelsi sem gerir það að verkum að nýliðar eiga möguleika á að komast inn í greinina og það gerir það líka að verkum að t.d. leiguverð á sóknardögum helst lágt og innan skynsamlegra marka.

Ég hvet hæstv. sjútvrh. til að kynna sér færeyska kerfið, fara til Færeyja og kynna sér kerfið.