Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 17:53:38 (5815)

2004-03-30 17:53:38# 130. lþ. 90.5 fundur 786. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (afnám gjalda) frv., SigurjÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[17:53]

Sigurjón Þórðarson (andsvar):

Frú forseti. Það væri hægt að gera ýmsar athugasemdir við ræðu hæstv. sjútvrh. Það sem er sérkennilegt er að svo virðist sem Tony Blair sé orðinn hæstiréttur í ýmsum málum hjá Sjálfstfl., skólagjaldaumræðu og fiskveiðistjórn, (MÞH: Stríðið í Írak.) stríðinu í Írak og ýmsu fleiru.

Ég var á ferð um Bretlandseyjar, m.a. að ræða fiskveiðistjórn, með fráfarandi sjútvrh. Færeyinga. Það var ekki að heyra á breskum útgerðarmönnum og sjómönnum að þeir litu til íslenska kerfisins, langt í frá. Það var helst varðandi uppsjávarveiðar, þeir litu svo á að kannski væri hægt að stjórna þeim með kvótum.

Ég held að einn megingallinn í Bretlandi sé sá að þar er afla mikið landað fram hjá vigt. Þar er kvótakerfi þó að það sé með öðrum hætti en hér. Þegar afla er landað fram hjá vigt fá menn rangar tölur í módelin. Það er einmitt það sem er að gerast hér, þegar menn henda minnsta fiskinum fá þeir rangar tölur í aldursaflagreiningum og ákvörðunum fiskstofna út frá þeim. Þá fá menn ekki réttar nýliðunartölur.

Ég verð að segja að það kæmi mér algjörlega í opna skjöldu ef breskir sjómenn og útgerðarmenn legðu það kerfi til miðað við það sem ég heyrði til þeirra. Ýmsir höfðu jafnvel unnið hjá íslenskum útgerðum, vita hvernig íslenska kerfið er og þeim leist hreint ekki neitt á það.