Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 18:05:27 (5823)

2004-03-30 18:05:27# 130. lþ. 90.5 fundur 786. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (afnám gjalda) frv., MÞH
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[18:05]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Hér hafa nokkuð verið til umræðu hugmyndir sem mér heyrast komnar frá Tony Blair og Verkamannaflokknum í Bretlandi um að taka upp kvótakerfi að íslenskri fyrirmynd í Norðursjó. Ég er ekki viss um að það sé lausnin. Ég er sigldur maður eins og fleiri hér inni. Ég hef komið á þessa staði, t.d. til Skotlands og hitt þar menn. Ég hef komið í þessa bæi eins og Peterhead og Fraserburgh, talað þar við sjómenn og útgerðarmenn. Þeir eru alls ekki á því að kvótar hafi skilað miklu fyrir veiðar þeirra í Norðursjó eða þá að fiskveiðistefna Evrópusambandsins hafi skilað Bretum, bresku þjóðinni eða Skotum eða Írum miklu, því miður.

Þarna hefur ástandið verið mjög slæmt um margra ára skeið. Menn hafa verið í kvótastýringu. Þarna hefur t.d. verið gríðarlegt brottkast og kvótasvindl. Þar viðurkenna allir fúslega, ef maður fer um bryggjurnar í Peterhead og Fraserburgh, að þeir hendi alveg gríðarlegu af fiski og þeir svindli eins og þeir geta á kvótunum. Það er töluvert miklu meira veitt af þorski og landað í skoskum höfnum en nokkurn tíma kemur fram á skýrslum.

Talað er um að í Norðursjó sé allt komið á vonarvöl vegna ofveiði. Sjómenn eru ekkert endilega sammála þessu. Þeir segja að fiskurinn hafi flutt sig til, m.a. vegna hækkandi hitastigs, þorskurinn hafi t.d. fært sig norðar í Norðursjó. Menn eru enn í dag dag að fá ansi góðan afla í Norðursjó. Hér er t.d. forsíða breska sjávarútvegsblaðsins Fishing News frá 19. mars. Hér er fullur trollpoki af stórum þorski sem veiddur er 180 mílur norðaustur af Peterhead. Það var vinur minn, Peter Bruce, skipstjóri og útgerðarmaður á togaranum Budding Rose, góður og ábyrgur maður og mjög duglegur útgerðarmaður, sem fékk þennan afla. Hann hefur sagt mér að ástandið í Norðursjónum sé miklu betra en fiskifræðingar Evrópusambandsins vilja halda fram. Málið er að varðandi Norðursjóinn er ekki hlustað á sjómenn, ekki hlustað á það sem þeir segja. Vísindamennirnir þar hlusta ekki. Því miður hafa þeir ekki heldur gert það í nægilegum mæli á Íslandi.

Ef við förum til Færeyja þá er það þannig að þar hafa vísindamenn í mörg herrans ár varað við ofveiði. Þeir hafa sagt að nú færi veiðin að minnka og loks væru menn komnir fram að hengifluginu. Það hefur þó ekki gerst enn þá. Í Færeyjum hafa menn borið gæfu til þess að hlusta ekki of mikið á fiskifræðingana en hlusta því meira á sína eigin sjómenn.

Í Færeyjum er að störfum svokölluð fiskidaganefnd. Í henni eru hagsmunaaðilar og sjómenn sem hafa mikið að segja um hversu margir fiskidagar eru gefnir út á næsta fiskveiðiári í Færeyjum, sem er það sama og fiskveiðiárið við Ísland, frá 1. sept. til 31. ágúst ár hvert. Þar hafa menn borið gæfu til að halda haus, ef svo má segja, að halda sjó. Þar ríkir stöðugleiki og hefur ríkt undanfarin sjö ár. Þorskstofninn við Færeyjar er núna talinn sá sterkasti í Norður-Atlantshafi hvernig sem á því stendur. Ég sakna enn og aftur skýringa hæstv. sjútvrh. á því hvernig svo má vera fyrst að þeir eru búnir að ofveiða svo ofboðslega á undanförnum árum.

Hér er mikið talað um Tony Blair og Verkmannaflokkinn, að þar sé íhugað að taka upp kvótakerfi að íslenskri fyrirmynd. Það má vel vera að þeir séu svo vitlausir að vilja láta sér detta það í hug. Ég ætla svo sem ekki að tala illa um hæstv. forsætisráðherra Breta, Tony Blair, í þessum ræðustól. Ég vil þó leyfa mér að fullyrða að hann hafi afskaplega lítið vit á fiskveiðum. Hann gæti örugglega ekki þekkt þorsk frá ýsu þó að líf hans lægi við. Þó að slíkar hugmyndir komi frá breska Verkamannaflokknum um þessi mál þá tek ég því temmilega alvarlega, ég verð að segja það. Ég tek meira mark á sjómönnum og útgerðarmönnum í Norðaustur-Skotlandi en einhverjum stjórnmálamönnum í Whitehall í London.

Ég hvet hæstv. sjútvrh., af því að ég veit að hann er menntaður í skoskum háskóla, til að gera sér ferð til sjávarbyggða á Norðaustur-Skotlandi og tala þar við sjómenn og útgerðarmenn, fá þá til að lýsa reynslu sinni, bæði af fiskveiðistefnu Evrópusambandsins og líka reynslu sinni í Norðursjó, lýsa því sem þeir hafa upplifað á undanförnum árum og hvað fólkið hefur þurft að ganga í gegnum. Þar hefur verið gegndarlaus niðurskurður, stærstur hluti fiskveiðiflota þeirra hefur verið sendur í brotajárn til Danmerkur. Bátarnir hafa verið dregnir í halarófu yfir hafið og höggnir í spað, ný skip, strandveiðiflotinn. Það er búið að rústa strandveiðiflotanum í norðausturhluta Skotlands af því að menn hafa ímyndað sér að það sé á vonarvöl í Norðursjó. Þetta er skelfilegt ástand. Ég hvet hæstv. sjútvrh. enn og aftur til að kynna sér ástandið þarna. Þetta er gersamlega ólíðandi, atvinnuleysi, vonleysi, félagsleg vandamál, hrein og klár eymd. Það er ekkert grín hvað þetta fólk hefur þurft að ganga í gegnum á undanförnum missirum í kvótakerfi Norðursjávarins, sem hefur ekki skilað neinu.

Ég veifaði áðan Fishing News frá 19. mars. Þar segja sjómennirnir hreinlega: Við vorum svo heppnir að þetta var að langmestum hluta þorskur. Ef þetta hefði verið ýsa, þetta hal upp á fleiri tonn, þá hefðum við neyðst til að henda aflanum vegna þess að við erum ekki með veiðileyfi á ýsu. Svona er fiskveiðistjórnin þarna.

Ég hitti eitt sinn skoskan sjómann sem sigldi með mér --- það væri gaman að fá að segja þá sögu fyrst ég er hér --- frá Skotlandi til Íslands einn vetur fyrir einu og hálfu ári síðan. Við tókum tal saman og hann sagði mér einmitt frá reynslu sinni í Norðursjó. Þeir höfðu verið að veiða Noregsmegin í Norðursjónum og fengið mjög góðan afla. En af því að brottkast var bannað með lögum í norsku lögsögunni, sem er helmingur af Norðursjó nánast, þá hirtu þeir aflann. En um leið og þeir voru komnir yfir línuna yfir á yfirráðasvæði Evrópusambandsins þá stoppuðu þeir skipið, hífðu kassana úr lestunum og hentu öllum þeim fiski sem þeir höfðu ekki kvóta fyrir áður en þeir fóru heim til að landa. Þetta er algjör geðveiki og gjörsamlega óverjandi á allan hátt. En þetta er gegnumgangandi vandamál.

Ég hef líka verið í Noregi og veit hvernig ástandið er þar. Þar hafa oft ansi vafasamir hlutir verið að gerast. Hvað með Nýfundnaland á sínum tíma? Það var ekki alltaf björgulegt þar heldur. Nei, kvótakerfi í botnfiskveiðum hafa hreinlega ekki verið að skila því sem menn hafa verið að vonast eftir. Ég vil enn og aftur hvetja til þess að við tökum upp sóknarstýringu í strandveiðiflota okkar Íslendinga og hættum að ofsækja þessar 300 trillur á sóknarmarki við Ísland. Við ættum frekar að fjölga í þessum flota, bakka út úr kvótakerfinu og binda öflugan fiskveiðiflota sem landar fersku hráefni í vinnslu. Nú um stundir gefur það einna best verð.

Norðmenn eru farnir að sjá möguleika á að framleiða fersk flök fyrir Frakklandsmarkað. Þangað er salan á ferskum fiski. Hún hefur fjórfaldast á einu ári. Það eru ekki frystitogarar sem veiða þennan afla. Nei, það er strandveiðiflotinn.

Öflugur strandveiðifloti er ekki svo slæmur. Hann er mjög góður og hefur marga kosti, bæði fyrir fiskstofna og fólkið í landinu.