Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 18:16:31 (5826)

2004-03-30 18:16:31# 130. lþ. 90.5 fundur 786. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (afnám gjalda) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[18:16]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég vona að hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson heyri orð mín því ég ætla aðeins að ræða um stefnu Frjálsl. í sjávarútvegsmálum. Ég er nefnilega á þeirri skoðun að hv. þm. og flokkur hans hafi gleymt að setja botninn í kerfið hjá sér. Þó að það sé ágreiningur um margt í sjávarútvegsmálum hér á landi er ekki mikill ágreiningur um að það þurfi að stjórna fiskveiðum. Ég geri ekki ágreining um það með hvaða aðferðum menn vilja stjórna fiskveiðum en ég tel að eitt hafi alveg sýnt sig við fiskveiðistjórn á Íslandi, að ef menn fara að stjórna fiskveiðum verður til verðmæti sem er fólgið í því að fá að stunda sjó og það skiptir þá ekki öllu máli hvort menn skammta með kvótum, dögum eða einhverju öðru.

Fiskveiðistjórnarkerfið á Íslandi er sett saman úr öllum þeim þáttum sem hv. þm. taldi upp áðan. Hér hafa verið notaðar alls kyns veiðitakmarkanir í gegnum tíðina, veiðarfæratakmarkanir, möskvastærðir, leyfi til veiða með tilteknum veiðarfærum á vissum svæðum, svæðalokanir og allt sem nöfnum tjáir að nefna, hvenær menn megi veiða á árinu o.s.frv. Allt eru þetta takmarkanir en ofan á þær hafa menn sett ýmist daga eða kvóta og þá verður til verðmæti sem er fólgið í eignarhaldi. Það er að mínu viti kominn tími til þess að menn greini á milli ágreinings um fiskveiðistjórn og ágreinings um eignarhald á veiðirétti í umræðunni sem fer fram um sjávarútvegsmál á Íslandi. Það er ekki nokkur leið að þola það lengur að menn geri ekki greinarmun á þessu tvennu því aðalágreiningurinn hefur alltaf staðið um eignarhaldið á veiðiréttinum og Samf. hefur ráðist til atlögu gegn því með tillögum sínum. Þær byggjast á því að hafa kvótakerfið áfram og breyta eignarhaldinu þannig að um það geti orðið sátt, þ.e. að aflétta því einkaeignarhaldi sem er á veiðiréttinum. Ég tel að það sé fullkomlega hægt að gera og fiskveiðistjórnin mun ekki líða fyrir það með nokkrum hætti.

Ég tel reyndar, þvert ofan í það sem hæstv. ráðherra sagði áðan og ég hefði viljað heyra rökstuðning hans fyrir, að ef búið væri að koma á leigukerfi með veiðirétt þar sem mönnum væri gefinn kostur á þeirri þjónustu frá hendi ríkisins að leigja til sín veiðiheimildir mundum við tryggja fullkomlega yfirráð okkar yfir fiskveiðum við Ísland um ókomna tíð þegar --- og ég segi þegar en ekki hvenær --- útlendir aðilar koma inn í útgerð á Íslandi. Það er alveg á hreinu að í framtíðinni munu menn ekki getað búist við því að Íslendingar komist upp með það að banna erlendum mönnum og fyrirtækjum að eignast útgerðir eða hlut í útgerðum á Íslandi en ætla sér jafnframt sjálfir stóra hluti í útgerð í helstu viðskiptalöndum okkar. Þetta mun einfaldlega bresta á að lokum og þá er mikilvægast af öllu að við höfum tryggt að eignarrétturinn yfir veiðiheimildunum á Íslandi sé eins og hann á að vera, hjá þjóðinni. Það er hægt með þeirri leið sem við höfum bent á og því fyrr sem menn komast að þeirri niðurstöðu því betra. Þangað til menn komast að þeirri niðurstöðu hafa menn varnir eins og hæstv. sjútvrh. sem sér enga aðra vörn en að múra sig inni, annars vegar með því að útlendir aðilar megi ekki eiga hlut í íslenskum útgerðum og hins vegar með því að aldrei í lífinu komi það til að menn gerist aðilar að Evrópusambandinu. Þetta er að mínu viti að sofa áfram að hafa þessa afstöðu því í framtíðinni mun þetta ekki duga. Ég er líka sannfærður um að menn gætu tekið upp svona kerfi erlendis. Ég hef engar upplýsingar um hvar fiskveiðistjórnarhugmyndir með kvótakerfi eru á vegi staddar í Bretlandi og treysti mér ekki í þá umræðu og ætla mér ekki að taka hana upp. Ég veit ekkert hvað þar er á ferðinni.

Ég er alveg sannfærður um að ef menn halda áfram á þeirri braut sem hefur verið mörkuð af núverandi ríkisstjórn og breyta ekkert út af henni, halda sig við einkaeignarhaldið á veiðiréttinum inn í framtíðina munu varnirnar hægt og bítandi halda áfram að bresta því þær hafa verið að gera það og menn munu viðurkenna eignarhaldið.

Ég var á fundi í Sjómannaskólanum fyrir fáeinum dögum. Þar talaði framkvæmdastjóri LÍÚ alveg hreint út, að auðvitað ættu útgerðarmenn að fá að fara með eign sína, þ.e. kvótann, eins og hverja aðra eign. Hvað gerir maður þegar maður á einhvern hlut? Maður vill fá að versla með hann, kaupa hann og selja að vild. Hve lengi mun Alþingi komast upp með það ef viðurkennt er endanlega að útgerðarmenn á Íslandi, stór fyrirtæki á Íslandi eigi veiðiréttinn á Íslandsmiðum að vera að setja einhverjar hömlur á það sem eru fólgnar í því að menn eru að veiða þetta á sín skip, mega ekki selja eða leigja öðrum aðganginn. Hvað verður þá uppi? Nákvæmlega ekkert annað en að til verða fáein fyrirtæki á Íslandi sem eiga Íslandsmið og selja aðganginn að þeim. Þetta er óhjákvæmilega sú framtíð sem bíður ef menn ætla að halda áfram á þeirri einkaeignarbraut sem núna er farin.

Hin leiðin er fólgin í því að gera það sem allir gera sem eiga einhverja eign og vilja nýta hana en vilja ekki selja hana, þá leigja menn öðrum aðgang og nýtingu að eigninni og ekkert bogið við það. Menn eru bara að nýta eign sína og fá af henni arð án þess að láta hana af hendi. Þetta vill Samf. að verði gert og hefur mótað stefnu um það. Ég tel að það sé mikil sögufölsun í gangi og ég nefndi greinaskrif hv. þm. Vestfirðinga, sérstaklega Einars Guðfinnssonar, í því efni þar sem hann hélt því fram að síðustu kosningar hefðu gert út af við fyrningarleiðina. Af hverju? Af því að Samf. komst ekki til valda eða hvað? Eða voru það úrslit kosninganna sem átt var við? Hægt er að velta því fyrir sér. Ýmsir sjálfstæðismenn hafa verið að hafa á orði að fyrningarleiðinni hafi verið hafnað í kosningunum. Hvaða leið var hafnað? Hverjir töpuðu í kosningunum? Var það ekki Sjálfstfl. sem tapaði langmest af öllum flokkum í kosningunum? Var þá ekki verið að hafna leið hans í málinu úr því að þetta snerist um sjávarútvegsmál, eða hvað? Ég held því ekki fram að fólk hafi sérstaklega verið að hafna leiðum Sjálfstfl. í sjávarútvegsmálum í kosningunum. Það er einfaldlega ekki hægt að lesa úr kosningum með þessum hætti. Það er bara rugl.

Það hefur líka komið fram að klofningurinn var nokkurn veginn 50% í Framsfl. um hvort ætti að fara fyrningarleiðina eða þá leið sem varð ofan á hjá hæstv. ríkisstjórn. Sá klofningur var í innstu kjörnum Framsfl. Það eru til nákvæmar skoðanakannanir þar sem farið var yfir hver afstaða fólks í landinu var til þessa fyrirkomulags, eignarhaldsins á veiðiréttindum. Meira að segja í Sjálfstfl. er langstærsti hluti fylgjendanna á móti fyrirkomulaginu. Þannig er það í öllum flokkum. Ég held að veiðigjaldsleiðin sé feigðarflan. Hún leysir engin vandamál og því fyrr sem menn setjast niður og fara að leita leiða til sátta í málinu, því betra.