Veiðieftirlitsgjald

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 18:28:38 (5828)

2004-03-30 18:28:38# 130. lþ. 90.6 fundur 787. mál: #A veiðieftirlitsgjald# (afnám gjalds) frv., JGunn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[18:28]

Jón Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að setja á langa ræðu. Það er í sjálfu sér búið að ræða málið í fyrri umræðunni en mig langar samt að spyrja hæstv. sjútvrh. um breytinguna sem verið er að gera, að fara að innheimta gjald fyrir flutning á sóknardögum, þörfina á því að koma með það núna. Er þetta að aukast svona mikið að það þurfi að fara að rukka fyrir þetta gjald? Ég sé að rökin sem sett eru fram í athugasemdum við lagafrv. eru þau að það beri að gæta samræmis milli aðila sem stunda fiskveiðar. Þá veltir maður fyrir sér hvort þess væri ekki full þörf á mörgum öðrum sviðum vegna þess að ég held að megingagnrýni á hið íslenska kvótakerfi sé einmitt að það sé ekki jafnræði, það sé ekki gætt samræmis milli aðila sem stunda þar fiskveiðar.

Við getum í því sambandi velt fyrir okkur þeim sem hafa fengið úthlutað aflaheimildum eða fengu þær á sínum tíma án þess að greiða fyrir þær og svo þeim sem greiða annaðhvort leigu eða borga fyrir þær, hvaða samræmi er þar á milli.

Spurningin er sem sagt þessi: Er flutningur á sóknardögum milli skipa að aukast það mikið að nú verði Fiskistofa að fá gjald fyrir þetta þannig að hún verði ekki fyrir einhverju tapi á þessu?