Veiðieftirlitsgjald

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 18:31:50 (5832)

2004-03-30 18:31:50# 130. lþ. 90.6 fundur 787. mál: #A veiðieftirlitsgjald# (afnám gjalds) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[18:31]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég vil gjarnan fá svör frá hæstv. ráðherra um það hvort það hafi verið skoðað í tengslum við þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að fara ekki eftir tillögum meiri hluta nefndarinnar sem lagði til að fara þessa leið hvað varðar veiðieftirlitsgjaldið og þróunarsjóðsgjaldið, sérstaklega veiðieftirlitsgjaldið. Þar var nefnilega lagt til að þetta gjald yrði í tvennu lagi, annars vegar grunnur sem væri innheimtur vegna kostnaðar hins opinbera og hins vegar veiðigjald sem væri þá hugsað sem gjald vegna afnota af fiskstofnunum.

Ég spyr vegna þess að við höfum séð það á síðustu árum að hér á hv. Alþingi hefur þróast sú grundvallarafstaða til mála að ekki eigi að innheimta hærri gjöld en sem nemur kostnaði af þeirri starfsemi sem verið er að innheimta fyrir. Veiðieftirlitsgjaldið er hugsað til að koma á móti þeim kostnaði sem hið opinbera hefur af veiðieftirlitinu.

Nú týnist þetta allt í þessum sjó sem þarna hefur verið búinn til og engin leið að gera sér grein fyrir því hvað er veiðieftirlitsgjald og hvað til að mæta einhverjum öðrum kostnaði sem ríkið þarf að mæta vegna sjávarútvegsins, og hvert er hið raunverulega veiðigjald sem er þá endurgjald fyrir að fá að nýta auðlindina.

Ekki veit ég af hverju menn tóku þessa ákvörðun en maður gæti látið sér detta í hug að menn hafi bara ekkert kært sig um að það væri hægt að sjá það svart á hvítu hvað væri í raun og veru innheimt sem gjald fyrir aðgang að auðlindinni og hvað ekki.

Veiðieftirlit hlýtur að koma upp í hugann við þessa umræðu og þess vegna langar mig að nefna eitt atriði sem ég hef ekki fengið tækifæri til að ræða um við hæstv. ráðherra. Það er sífellt verið að breyta veiðieftirliti hér og hæstv. ráðherra er að gera breytingar á hinum ýmsu reglugerðum. Eitt af því sem hæstv. ráðherra gerði nýlega var að breyta reglugerð um veiðar í grásleppunet á Breiðafirði. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra um það. Þarna á Breiðafirðinum hafa menn mátt byrja veiðar í grásleppunet 20. apríl en hæstv. ráðherra er núna búinn að leyfa að þær veiðar byrji 1. apríl. Á sama tíma stendur yfir fæðingarorlof hjá þorskinum á þessum slóðum eins og annars staðar, hæstv. ráðherra gefur út leyfi til fæðingarorlofs eða hrygningarstopps á þorski. Satt að segja botna ég hvorki upp né niður í því að niðurstaðan hjá hæstv. ráðherra skuli vera að leyfa netaveiðar, enn þá meiri en voru, einmitt á þeim tíma sem hrygningarstoppið stendur yfir. Ég hefði frekar talið að menn ættu að fara í hina áttina og reyna að tryggja að hrygningarstoppið virkaði betur.

Það er vitað að menn veiddu verulega mikið af þorski í grásleppunetin í fyrravor og það er alveg ljóst að það verður mikil veiði á stórþorski í grásleppunetin. Þessi þorskur kemur annaðhvort ekki að landi að stórum hluta til eða skemmdur. Þetta vita allir sem hafa kært sig um að vita það.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort þetta hafi verið mistök hjá honum og bið um það héðan úr ræðustól að mjög grannt verði fylgst með. Þau net sem eru notuð til að veiða grásleppu á þessum tíma sem hrygningarstoppið stendur yfir eru ekkert smávegis. Gífurlega miklar netaveiðar fara fram á þessum tíma og ég hefði talið að það væri miklu skárri kostur að gefa þá grásleppunni smáhrygningarstopp líka í leiðinni með þorskinum því að það er nógur tími til að veiða grásleppu í framhaldi af hrygningarstoppinu.