Veiðieftirlitsgjald

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 18:37:23 (5833)

2004-03-30 18:37:23# 130. lþ. 90.6 fundur 787. mál: #A veiðieftirlitsgjald# (afnám gjalds) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[18:37]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Þegar við fjölluðum um veiðigjaldið fyrir tveimur árum var ítarlega farið í það hvers vegna farið var út í að hafa eitt gjald í staðinn fyrir tvö. Ástæðan var sú að það var talið til einföldunar að hafa eitt gjald. Þegar búið var að reikna út ýmsa möguleika á þessu gáfu þeir mjög svipaða ef ekki bara nánast sömu niðurstöðu. Niðurstaðan til einföldunar varð því sú að hafa eitt gjald.

Seinna atriðið sem hv. þm. nefndi varðaði hrognkelsaveiðarnar, hrygningarstoppið og eftirlit með því. Það getur vel verið að þessi ákvörðun orki tvímælis og þess vegna er sjálfsagt að verða við því sem hv. þm. óskar hér eftir, að eftirlit verði haft með þessu. Reynist það rétt sem hann heldur fram er þá hægt að breyta þessu á næsta ári eða grípa jafnvel inn í ef í óefni stefnir. Hins vegar er svolítið erfitt að setja hrognkelsin í hrygningarstopp þar sem þau eru sérstaklega veidd til þess að hirða úr þeim hrognin.