Veiðieftirlitsgjald

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 18:39:09 (5834)

2004-03-30 18:39:09# 130. lþ. 90.6 fundur 787. mál: #A veiðieftirlitsgjald# (afnám gjalds) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[18:39]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það verður ekki mikið um grásleppu á Íslandsmiðum ef einhverjar þeirra fá ekki að hrygna. Það var það sem ég átti við, að eitthvað af grásleppunni þurfi að fá að hrygna til að viðhalda stofninum. Það mætti þá alveg eins gerast framan af vertíðinni eins og aftan til á henni.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir jákvæð svör hvað þetta varðar. Ég held að þetta sé eitthvað sem menn eigi að fara í rólegheitum yfir og athuga hvort ekki eigi að taka á og fylgjast a.m.k. mjög vel með hvaða áhrif þetta hefur.

Hitt vildi ég svo segja að ég velti því fyrir mér í tengslum við eina gjaldið sem er hugsað í þessu samhengi sem við vorum að ræða hér áðan, bara vegna þess að það hefur komið mjög skýrt fram að það sé brot á lögum að innheimta gjöld sem eru ekki í samræmi við þá þjónustu sem ríkið veitir. Ég held að hluti af því hljóti að vera að mjög nákvæmlega sé greint hver kostnaðurinn sé og hvert gjaldið eigi að vera hvað varðar opinbera starfsemi. Þetta er að mínu viti á skjön við þær reglur sem menn hafa verið að færa sig inn á á undanförnum árum hvað þessa hluti varðar.