Veiðieftirlitsgjald

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 18:42:05 (5836)

2004-03-30 18:42:05# 130. lþ. 90.6 fundur 787. mál: #A veiðieftirlitsgjald# (afnám gjalds) frv., MÞH
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[18:42]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Ég hnýt hér aðeins um athugasemdirnar við lagafrv. sem hæstv. sjútvrh. var að leggja fram áðan. Í síðustu mgr. stendur, með leyfi forseta:

,,Í 2. gr. er lagt til að innheimt verði sama gjald fyrir flutning á sóknardögum milli skipa og innheimt er fyrir flutning á aflahlutdeild og krókaaflahlutdeild enda sama vinna í því fólgin. Ekki hefur verið innheimt gjald fyrir flutning á sóknardögum milli skipa en nauðsynlegt er að það verði gert til að gæta samræmis milli aðila sem stunda fiskveiðar. Er því lagt til að umræddar breytingar verði gerðar á lögunum.``

Mig langar í raun og veru til að vita hvers vegna ekki hefur verið innheimt gjald fyrir flutning á sóknardögum. Mér skilst að þetta gjald eigi að renna, og það á að renna samkvæmt þessu frv., til reksturs Fiskistofu. Er það einhverra hluta vegna þess að eftirlit með þessum sóknardagabátum hefur verið kostnaðarminna en eftirlit með kvótabátunum? Það væri gaman að fá svör við þessari spurningu hjá hæstv. sjútvrh.

Svo langar mig aðeins til að minnast á ræðu hv. þm. Jóhanns Ársælssonar áðan þar sem hann talaði mikið um að eignarhaldið á kvótunum þyrfti að leysa og að sjávarútvegsstefna Samf. væri lausnin á því. Ja, guð láti gott á vita, segi ég. Ég er ekki alveg viss um það og er svo sem ekki alveg sammála því að einhver fyrningarleið á kvótum, þar sem menn ætli síðan að vera áfram í kvótakerfi í blönduðum bolfiskveiðum, sé lausnin, langt í frá. Ég er algjörlega ósammála því.

Þessi spurning um eignarhald hefur að sjálfsögðu bitnað verst á þeim sem svo gjarnan vildu fá að stunda fiskveiðar við Ísland en fá ekki í dag. Ég held að það mundi miklu frekar leysast með því að við settum þennan strandveiðiflota okkar inn í sóknarmark eins og ég hef lýst hér fyrr í dag og að við reyndum að opna kerfið neðan frá.

Ef við lítum enn og aftur til Færeyja hefur það verið þannig, það er bara staðreynd, að verð þar, t.d. í sóknardögum, bæði í leigu og síðan varanlegt verð, hefur haldist innan skynsamlegra marka vegna þess að menn hafa alltaf valmöguleika. Ef verð á þessum dögum er allt of hátt, að þeir telja, t.d. miðað við fiskverð á hverjum tíma, geta þeir einfaldlega bara farið út og róið á trillu. Þar er nóg til af veiðileyfum. Það hefur gert það að verkum að spennan í færeyska kerfinu verður aldrei jafnmikil og spennan hefur oft og tíðum verið hér við Ísland. Það er hin einfalda lausn. Þetta er ekkert voðalega flókið mál.

Svo eiga menn bara að anda rólega, anda með nefinu og vera ekkert að fara á límingunum þó að stundum aflist vel. Það er bara þannig að þegar maður stundar strandveiðarnar eru svo margar breytur sem hafa áhrif á aflabrögð, svo sem gæftir, göngur á fiski, ætisframboð á miðunum, hvort veitt er með línu eða handfærum til að mynda. Þessar breytur hafa allar mikil áhrif. Og þessu ráðum við ekki. Við sjáum hvernig reynslan hefur verið hér á undanförnum árum. Hvernig er með skötuselinn t.d. sem menn héldu að væri ofveiddur fyrir nokkrum árum? Hann flæðir um öll mið og er farinn að veiðast á ólíklegustu stöðum. Það virðist vera miklu meira af honum en fiskifræðingar sögðu okkur. Ég veit ekki betur en að keilustofninn sé líka að braggast. Einhver var að hvísla því í mín eyru á dögunum.

[18:45]

Málið er að þau vísindi sem við höfum grundvallað ákvarðanir okkar á eru einfaldlega ekki nógu góð. Þau eru ekki nógu nákvæm. Hafið er svo óboðslega stórt. Að ætla að stjórna því eftir reglum þar sem menn mæla allt í kílóum gengur ekki upp í blönduðum botnfiskveiðum. Það er bara einföld staðreynd. Ég skil hreinlega ekki, með mínum besta vilja, að fólk skuli ekki ná þessu, ég næ því ekki.

Áðan var líka minnst á Norðursjóinn. Við getum haldið áfram að tala um það líka. Hæstv. sjútvrh. hefur gert mikið úr grein í Morgunblaðinu sem einhverra hluta vegna fór fram hjá mér, um að Bretar væru að taka upp kvótakerfi að íslenskri fyrirmynd. Það er svolítið skrýtið hvaða greinar og fréttir rata í Moggann. Kannski er enn þá merkilegra hvaða fréttir rata ekki þangað.

Ég vil benda á að tveir ágætir Íslendingar hafa ferðast um Írland og Bretland, Jón Kristjánsson fiskifræðingur og hv. þm. Sigurjón Þórðarson, í slagtogi við þriðja mann, Jørgen Niclasen, fyrrv. sjávarútvegsráðherra Færeyja. Þessir ágætu herramenn fóru á síðasta ári til Kilkeel í Norður-Írlandi, til Peterhead og Fraserburgh í Norðaustur-Skotlandi og síðan fóru Jón Kristjánsson og Jørgen til Danmerkur. Ég er þannig innréttaður að ég fylgist mjög vel með í fjölmiðlum, ekki síst sjávarútvegsfréttum, m.a. í nágrannalöndunum og í öðrum fjölmiðlum ef svo ber undir. Erindi sem þessir menn fluttu á þessum stöðum vöktu gríðarlega athygli og komust alls staðar í fjölmiðla. Jón Kristjánsson var m.a. svo frægur að komast í danska sjónvarpið, helsta fréttatímann þar, í janúar. Var sagt frá þessu á Íslandi í íslenskum fjölmiðlum? Nei, frá því var ekki sagt. Hvers vegna skyldi það nú vera?