Veiðieftirlitsgjald

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 18:47:37 (5837)

2004-03-30 18:47:37# 130. lþ. 90.6 fundur 787. mál: #A veiðieftirlitsgjald# (afnám gjalds) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[18:47]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ástæðan fyrir því að ekki hafi verið lagt til að innheimta gjald vegna flutnings á sóknardögum hafi einfaldlega verið vangá. Það hefur ekkert með umfang eftirlitsins að gera. Varðandi þessa frétt í Morgunblaðinu, um það að Bretar leggi til kvótakerfið, þá hóf ég ekki máls á henni heldur hv. þm. Jóhann Ársælsson. En þar sem hún hefur farið fram hjá hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni er rétt að geta þess að hún var á forsíðu Morgunblaðsins og byggðist reyndar á frétt úr Daily Telegraph, breska dagblaðinu.

Hins vegar má svo sem alveg taka undir það með hv. þm. að maður veltir því oft fyrir sér hvað ráði fréttamati íslenskra fjölmiðla. En hv. þm. hefur kannski meiri reynslu af því en ég og ætla ég ekki að fara lengra út í það að þessu sinni. Hins vegar heyrist mér á honum að honum hafi þótt það hið mesta happaráð að setja skötuselinn og keiluna í kvóta því að báðir þessir stofnar virðast síðan hafa blómstrað sem aldrei fyrr.