Veiðieftirlitsgjald

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 18:49:02 (5838)

2004-03-30 18:49:02# 130. lþ. 90.6 fundur 787. mál: #A veiðieftirlitsgjald# (afnám gjalds) frv., MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[18:49]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel það ekki hafa verið happaráð. Ég held að hægt hefði verið að ná meiri afla úr þessum tveimur ágætu fiskstofnum ef þeir hefðu ekki verið settir í kvóta.

Það sem ég benti á í málflutningi mínum var einfaldlega að þessi vísindi eru svo ónákvæm að þó að afli detti kannski niður í einstökum stofnum á einhverjum árum, einu ári, tveimur eða þremur ef því er að skipta, þá þarf það ekki endilega að þýða að stofninn sé ofveiddur.

Í gær benti hæstv. sjútvrh. t.d. á að menn væru farnir að veiða sífellt yngri kolmunna, það væri merki um ofveiði í kolmunnastofninum. Ég er ekki sammála því. Ástæðan fyrir því að menn hafa verið að fá mikið af smáum kolmunna á undanförnum árum hefur einfaldlega verið sú að tveir gríðarlega sterkir árgangar af kolmunna hafa komið inn í veiðina. Þetta er ekkert flóknara en það. 1999 og 2000 árgangarnir eru stærstu kolmunnaárgangar sem menn hafa nokkurn tíma séð. Þessir árgangar hafa komið inn í veiðina og þess vegna hafa menn verið að veiða þá. Það er einfaldlega svo mikið af þessum kolmunna á slóðinni að menn komast ekki hjá því að veiða hann. Þetta hefur ekkert með ofveiði að gera.