Sóttvarnalög

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 18:53:41 (5841)

2004-03-30 18:53:41# 130. lþ. 90.7 fundur 790. mál: #A sóttvarnalög# (skrá um sýklalyfjanotkun) frv., ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[18:53]

Ásta Möller:

Virðulegi forseti. Mig langar að segja nokkur orð um frv. sem hér er til umræðu, um breytingar á sóttvarnalögum sem miða að því að haldin sé skrá um sýklalyfjanotkun. Ég skil ágætlega ástæðu þess að ákvæðið um sýklalyfjanotkun skuli sett í sóttvarnalög, sérstaklega í ljósi þess hve alvarlegar aðstæður geta komið upp þegar menn mynda ónæmi gagnvart sýklalyfjum. Meira að segja hefur verið um það rætt að þær aðstæður geti komið upp að mannkynið stæði frammi fyrir sömu aðstæðum og voru áður en pensillínið var fundið upp. Það er ekki skemmtileg framtíðarsýn þannig að ég skil ástæðurnar sem liggja þarna að baki.

Hins vegar vakna nokkrar spurningar við lestur frv., sérstaklega varðandi framkvæmd þessa ákvæðis, ekki síst um hvernig þessar breytingar tengjast breytingum á lyfjalögum sem varða gagnagrunn, ekki lyfjagagnagrunn heldur tölfræðigagnagrunn, þ.e. breytingar sem gerðar voru á lyfjalögum á síðasta kjörtímabili, á síðasta ári ef ég man rétt.

Mig langar fyrst að beina augum að 2. gr. frv. Þar er talað um að haldin skuli skrá um notkun manna á sýklalyfjum sem valdið geti ónæmi gegn sýklalyfjum. Ég velti fyrir mér hvort hér sé um að ræða skrá yfir öll seld sýklalyf eða hvort verið er að beina athyglinni að sérstökum tegundum sýklalyfja sem sýnt er að myndi lyfjaónæmi. Mig langaði að fá upplýsingar um það.

Varðandi framkvæmdina hef ég verið að reyna að sjá fyrir mér hvernig þetta yrði gert, hvort sett yrði upp nýtt kerfi eða hvort tölfræðigagnagrunnurinn verði notaður í þessum tilgangi. Ef við erum að setja upp nýtt kerfi þá átta ég mig ekki á umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn. sem segir að ekki verði séð að samþykkt frv. leiði til umtalsverðra útgjalda fyrir ríkissjóð. Þetta er það umfangsmikið verkefni að það hlýtur að kalla á aukin aðföng og fjármagn til að halda utan um þetta verkefni.

Ég vildi aðeins varpa fram þessari spurningu, annars vegar varðandi umfangið, hvort verið er að tala um öll sýklalyf eða einhver ákveðin sýklalyf og hins vegar varðandi tengingu þessa frv. við tölfræðigagnagrunninn. Hvaða upplýsingar, ef þetta er sérstök upplýsingaöflun, er þarna að hafa sem ekki er að öðru leyti hægt að afla næst því að fá upplýsingar í gegnum tölfræðigagnagrunninn, sem ég reyndi að gera mér ljóst að er ekki kominn á laggirnar?