Fölsun listaverka

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 14:08:04 (5866)

2004-03-31 14:08:04# 130. lþ. 92.1 fundur 506. mál: #A fölsun listaverka# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[14:08]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Hæstv. forseti. Á síðustu missirum hafa komið upp alvarleg málverkafölsunarmál sem enn er ekki séð fyrir endann á. Meðal ágreiningsatriða og óvissuþátta í þessum málum má nefna atriði er varða eignarrétt og höfundarétt og flókið samspil þessara þátta. Menn greinir á um hversu mörg verk koma við sögu en víst er að þau skipta hundruðum og snerta málin marga helstu meistara íslenskrar málaralistar. Þar af leiðandi er ekki um að ræða þrönga einkahagsmuni eigenda myndverkanna heldur er beinlínis um að ræða almannahagsmuni í ljósi þess að málin snerta þjóðararf okkar í myndlist og í því ljósi ber að skoða þessi mál.

Ýmsir, og þar á meðal forstöðumaður Listasafns Íslands, óttast mjög hættuna á að fölsuð myndverk geti komist aftur í umferð og þannig haldið áfram að skaða íslenskan listaverkamarkað enda, eins og komið hefur fram í umfjöllun um málið, koma ákvæði 69. gr. almennra hegningarlaga og ákvæði í 55. gr. höfundalaga í veg fyrir að fölsuð myndverk verði gerð upptæk þar sem um er að ræða eign grandalauss þriðja aðila, kaupanda í góðri trú sem ekkert er við brotin riðinn. Eigendur hinna fölsuðu verka fá þau aftur í hendur eftir að dómsmáli vegna þeirra lýkur þó vitandi það að upplýsingar um verkin verða skráð hjá Listasafni Íslands.

Hins vegar vita menn að líftími myndverka er talsvert lengri en ein mannsævi og því ekki hægt að tryggja að saga verkanna fylgi þeim um aldur og ævi þó svo hún sé einhvers staðar skráð. Það er ekkert sem tryggir að vitneskjan um fölsun gangi til erfingja verkanna og er raunar líka ákveðin hætta fólgin í því að verkin verði flutt úr landi og seld þar sem engar upplýsingar um þau er að finna.

Varðandi þennan þátt er athugandi hvort ekki geti annars konar úrræði en þau að gera myndverkin upptæk komið til. Mætti ekki t.d. hugsa sér að heimilað verði með lögum að merkja sérstaklega þau verk sem færðar hafa verið sönnur á að séu fölsuð? Það væri að öllum líkindum ekki óeðlilegt í ljósi hættunnar á því að verkin fari aftur í umferð.

Í þessu sambandi má líka velta fyrir sér hvort hið opinbera ætti að taka sig til og láta vinna fullkomna verkaskrá helstu meistara okkar svo tryggja megi að fölsunarmál af því tagi sem við nú glímum við endurtaki sig ekki.

Svo er annar flötur á málinu, sá lýtur að hugverkaréttinum. Hver er t.d. réttur þeirra höfunda myndverka eða erfingja þeirra sem þurfa að sætta sig við að í umferð séu myndverk með nafni þeirra, nafni listamanns, sem ekki kom nálægt því að mála viðkomandi mynd? Geta þessir höfundarétthafar, höfundar eða erfingjar þeirra t.d. gert kröfu um að fölsuð auðkenni verði afmáð af slíkum verkum?

Ég tel þessar spurningar afar áleitnar og legg þær fyrir hæstv. menntmrh. eins og þær eru fram bornar á þskj. 778.