Fölsun listaverka

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 14:16:32 (5868)

2004-03-31 14:16:32# 130. lþ. 92.1 fundur 506. mál: #A fölsun listaverka# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[14:16]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. svörin og sérstaklega það að hún skuli ætla sér að bera þessar hugmyndir eða spurningar undir höfundaréttarnefnd því að sú nefnd er sá aðili í kerfinu sem ætti að taka faglega afstöðu til slíkra mála. Það er auðvitað sameiginlegt hagsmunamál okkar allra að spornað sé gegn verslun með fölsuð myndverk og reynt að lágmarka eins og hægt er þann skaða sem íslenskur myndlistarmarkaður hefur þegar orðið fyrir vegna þeirra atburða sem átt hafa sér stað. Höfundaréttarnefnd er því sannarlega rétti aðilinn til að tjá sig um þessi mál. Síðan má auðvitað taka undir með hæstv. ráðherra varðandi það að dómstólar þurfi að skera úr um sæmdarrétt höfundanna. Ég veit sjálf ekki til þess að dómstólar hafi fengið til meðferðar mál sem varða 2. tölulið fyrirspurnar minnar, þ.e. hvort nokkur höfundur eða erfingi höfundar hafi sóst eftir því að falsað höfundarnafn sé afmáð af mynd. En þar kemur vissulega til sæmdarréttur höfundanna og erfingja hans.

Það sem er erfitt viðureignar varðandi það að falsaðar myndir geti farið í umferð er auðvitað tímafaktorinn því það líður svo langur tími frá því að málin eru útkljáð fyrir dómstólum og gæti liðið mannsaldur eða tveir þangað til verkin færu aftur í umferð. Þar af leiðandi er möguleiki á því að erfingjum verka sé alls ekki kunnugt um að viðkomandi verk hafi farið fyrir dómstóla og hafi verið dæmt falsað ef ekki er gerð krafa um að verkið sé sérstaklega merkt þegar dómstólar hafa dæmt það.

Eins og hefur komið fram í máli mínu, virðulegi forseti, og í máli hæstv. menntmrh. er hér um flókin mál að ræða en það er afar mikilvægt að við tökum á þeim og ég held að það verði best gert í samvinnu þeirra ráðherra sem málin heyra undir. Hæstv. dómsmrh. hefur svarað fyrir um þessi mál, þau heyra líka undir hæstv. iðnrh. og hæstv. menntmrh. og ég treysti því að menn vinni að því í sameiningu að reyna að lágmarka þann skaða sem hér gæti verið á ferðinni.