Íslensk byggingarlist

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 14:19:09 (5869)

2004-03-31 14:19:09# 130. lþ. 92.2 fundur 559. mál: #A íslensk byggingarlist# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[14:19]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Hæstv. forseti. Segja má að kveikja þeirrar spurningar sem ég legg fyrir hæstv. menntmrh. um íslenska byggingarlist sé fengin úr afskaplega athyglisverðri sýningu arkitektafélaga allra Norðurlandanna sem boðið var upp á í Reykjavík í ágúst síðasta sumar. Sýningin bar heitið Auðlegð í norrænni byggingarlist og fjallaði á afar fróðlegan hátt um vistvæna íbúabyggð eftir 1995 þar sem þættir eins og landslag og tengsl við náttúru, borgarbyggð, mismunandi sambýlisform o.fl. koma við sögu.

Stjórnvöld í nágrannalöndum okkar hafa mörg hver verið að koma sér upp opinberri stefnu í byggingarlist á síðustu árum. Þannig eru Finnar, Svíar og Danir búnir að samþykkja slíka stefnu og ýmis sveitarfélög í nágrannalöndum okkar og einstakar borgir hafa líka mótað stefnu um sitt afmarkaða svæði. Hér á landi var unnið mikið brautryðjendastarf á vegum Akureyrarbæjar sem mótaði sér stefnu í byggingarlist fyrir skemmstu og nú mun vera væntanleg svipuð stefna hjá Reykjavíkurborg, en sú vinna fór af stað að frumkvæði Arkitektafélags Íslands og hefur verið unnin undir stjórn Þorvalds S. Þorvaldssonar borgararkitekts.

Í ljósi þeirrar vakningar sem hefur orðið í umræðunni um skipulagsmál og vistvænar byggðir og byggingar, t.d. í tengslum við Staðardagskrárverkefnið og Dagskrá 21, er eðlilegt að spyrja hæstv. menntmrh. sérstaklega um þátt vistvænnar byggingarlistar í framtíðarstefnu stjórnvalda um sjálfbæra þróun, en eins og kunnugt er hafa íslensk stjórnvöld gefið út stefnu um sjálfbæra þróun til framtíðar undir heitinu Velferð til framtíðar, og undir slíka stefnu hugmyndir um vistvæna byggð.

Í sýningarskrá sem fylgdi sýningunni Auðlegð í norrænni byggingarlist segir Valgerður Bjarnadóttir, formaður Arkitektafélags Íslands, með leyfi forseta:

,,Aðstandendur sýningarinnar telja mikilvægt að vekja umræðu um breytt verðmætamat og leita lausna sem stuðla að hagkvæmri nýtingu auðlinda og minni sóun verðmæta. Í stað sóunar og þess að farga ónýtum hlutum megi líta á ónothæfa hluti sem auðlind sem finna megi nýjan tilgang. Í stað þess að rífa og henda megi hlúa að, breyta og bæta, líta á úrgang sem auð, breyta vandamáli í tækifæri.``

Virðulegur forseti. Í tilefni þessa hef ég lagt fyrir hæstv. menntmrh. eftirfarandi spurningar:

1. Hafa íslensk stjórnvöld mótað samræmda stefnu í málefnum íslenskrar byggingarlistar?

2. Með hvaða hætti hafa stjórnvöld komið að starfi íslenskra arkitekta á norrænum vettvangi um auðlegð í norrænni byggingarlist?

3. Hvaða sess skipar vistvæn byggingarlist í framtíðarstefnu stjórnvalda um sjálfbæra þróun?