Íslensk byggingarlist

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 14:24:33 (5871)

2004-03-31 14:24:33# 130. lþ. 92.2 fundur 559. mál: #A íslensk byggingarlist# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[14:24]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör og að fá þá vitneskju nú að ráðuneytið skuli hafa þessi mál til athugunar varðandi íslenska byggingarlist og stefnu í þeim efnum. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra sömuleiðis til þess að efna til þess samstarfs sem hún getur hér um réttilega að þurfi að fara fram milli fagaðila og stjórnvalda í þessu máli og lýsi því hér yfir að það er ánægjulegt að einhver skoðun skuli vera að hefjast á þessum málum í ráðuneytinu.

Hvað varðar nauðsyn þess og mikilvægi þess að komið verði á opinberri stefnu í byggingarlist nefndi hæstv. ráðherra að aukin gæði hins manngerða umhverfis væru einn þátturinn og annar sá að efla íslenskan byggingariðnað.

En það má ekki gleyma því heldur, herra forseti, að hér er líka um menningararf að ræða. Hluti af okkar íslenska menningararfi er fólginn í byggingum okkar, í húsagerðarlist okkar, og við skulum ekki gleyma því að húsagerðarlistin sem slík og vinnubrögðin sem hafa verið viðhöfð við hana í gegnum tíðina er hluti af menningararfi okkar og er þess vegna mikilvægt að mínu mati að þar verði um ákveðna varðveislu að ræða og að stjórnvöld komi þar aktíft inn til þess að sjá til þess að byggingarlist okkar nái flugi í framtíðinni og að í henni sé ákveðið samhengi við fortíðina.

Mér þykir skipta verulegu máli að hæstv. menntmrh. lýsi áhuga sínum á því að starf af þessu tagi fari fram. Og þó svo að hæstv. umhvrh. þurfi kannski að ákveðnu leyti að koma að hinum vistvæna þætti þessara mála þá er það rétt og ef hæstv. iðnrh. þarf að koma að málunum að einhverju leyti líka varðandi hönnunarþáttinn má segja að að ákveðnu marki sé byggingarlistin á gráu svæði á milli ráðuneyta. Í mínum huga ætti þó meginábyrgðin að hvíla á herðum menntmrn. og hvet ég því hæstv. menntmrh. til að halda frumkvæði í þessum málum.