Tækniháskóli Íslands

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 14:27:59 (5873)

2004-03-31 14:27:59# 130. lþ. 92.3 fundur 766. mál: #A Tækniháskóli Íslands# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[14:27]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég spyr hæstv. menntmrh. um framtíðarstaðsetningu Tækniskóla Íslands og það fer vel á því. Nú eru um 40 ár frá því að fyrsta undirbúningsdeild að tækninámi var sett á laggir við Vélskólann í Reykjavík og opnaði þá á námsmöguleika sem fram að því voru óþekktir á Íslandi og áttu eftir í fyllingu tímans að breyta miklu í menntamálum okkar.

Það er mjög mikilvægt að mínu mati að búa vel að þessum skóla og efla starfsemi hans. Þegar fjallað er um framtíðarstaðsetningu stofnana og t.d. skóla á háskólastigi er mjög gjarnan horft annars vegar til Reykjavíkur og hins vegar til landsbyggðarinnar til að koma til móts við menntakröfur heima fyrir og oft og tíðum líka varðandi stofnanir og háskóla sem lyftistöng fyrir þau byggðarlög og möguleika á að halda ungu fólki heima og að fá til sín nýja starfskrafta sem felst í því að kennarar og starfsfólk sæki til slíks skóla.

En staðreyndin er sú að höfuðborgarsvæðið nær langt út fyrir Reykjavík og það er löngu farið að líta á höfuðborgarsvæðið sem eina heild --- höfuðborgarsvæðið. Því er það alveg sérstaklega áhugavert varðandi Tækniskóla Íslands að tveir bæir í Suðvesturkjördæmi hafa boðið fram aðstöðu fyrir Tækniskólann. Þeir bæir eru Mosfellsbær og Hafnarfjörður.

Nú ber svo við að ég þekki betur stöðuna í Hafnarfirði þar sem þingmönnum kjördæmisins hefur verið kynnt hvað þar er í boði. Þar hefur verið unnið deiliskipulag að háskólasvæði sem að sjálfsögðu er fyrir hendi og verður nýtt hvort sem Tækniskólinn kemur þangað eða ekki, en ég hlýt að segja frá þeirri framsýni að þar hefur verið unnið deiliskipulag að háskólasvæði, gert ráð fyrir leiguíbúðum fyrir stúdenta á svæði sem liggur að glæsilegri íþróttaaðstöðu, húsi, útivistarsvæði og sundlaug. Ein af stofnleiðum almenningsvagna mun liggja beint inn á svæðið og það er því mjög áhugavert að heyra hvað hæstv. menntmrh. hefur að segja. Fyrst og fremst á það auðvitað við þróun skólans og framtíðarsýn en einnig hvert pólitískt mat hæstv. ráðherra er á því að staðsetja skóla eins og þennan í nágrannabæjunum.