Tækniháskóli Íslands

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 14:30:51 (5874)

2004-03-31 14:30:51# 130. lþ. 92.3 fundur 766. mál: #A Tækniháskóli Íslands# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[14:30]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Tækniháskóli Íslands hefur undanfarin ár starfað í nokkuð óhagkvæmu leiguhúsnæði á Höfðabakka 9. Húsnæðið var upphaflega byggt sem iðnaðarhúsnæði og er því fremur óhentugt sem skólahúsnæði.

Núverandi stærð þess húsnæðis sem Tækniháskólinn nýtir er 8.500 fermetrar og nýtist það misvel vegna skipulags þess. Húsaleigusamningurinn um núverandi húsnæði gildir til næstu 10 ára eða til 2014 en hann er uppsegjanlegur.

Nemendum Tækniháskóla Íslands hefur fjölgað mikið síðustu ár og voru ársnemendur skólans 624 árið 2000 en í fjárlögum ársins 2004 er gert ráð fyrir 855 ársnemendum, þ.e. fjölgað hefur um rúmlega 200 nemendur á þessum árum. Í áætlun skólans kemur einnig fram að stjórnendur skólans telja að nemendum komi til með að fjölga á næstu árum. Fyrirkomulag núverandi húsnæðis og nemendafjölgun hefur hvort tveggja þrýst á um breytingar í húsnæðismálum skólans.

Stjórnendur Tækniháskólans hafa um skeið, að eigin frumkvæði, skoðað hugmyndir um framtíðarstaðsetningu skólans. Starfshópur á vegum Tækniháskólans gerði úttekt á núverandi húsnæði skólans og frumkönnun á fjórum mögulegum staðsetningum skólans til framtíðar. Niðurstöður hópsins lágu fyrir í febrúar 2003. Til að fylgja eftir þeirri vinnu var unnin greinargerð af hálfu Arkís ehf. í samvinnu við Land-ráð sf., sem er ráðgjafarfyrirtæki dr. Bjarna Reynarssonar. Þeirri vinnu lauk í desember 2003 og var greinargerðin gefin út í febrúar 2004. Markmið greinargerðarinnar var að meta þá staði á höfuðborgarsvæðinu sem þegar hafa verið valdir af hálfu Tækniháskólans og eru helst taldir koma til greina fyrir framtíðarstaðsetningu skólans. Greinargerðinni er ætlað að gefa hlutlaust mat á kostum og göllum hvers staðar út af fyrir sig út frá skipulagslegum sjónarmiðum og benda út frá því mati á æskilegustu staðsetningu skólans. Greinargerðinni er þannig ætlað að verða hluti þeirra gagna sem notuð verða við endanlegt val á staðsetningu Tækniháskólans til framtíðar.

Auk núverandi staðsetningar Tækniháskólans voru eftirfarandi sex staðir teknir til umfjöllunar. Það er lóð Hampiðjunnar í Ártúnshöfðahverfi, vestan Höfðabakka og norðan Vesturlandsvegar; svæðið við rannsóknastofnanir atvinnuveganna í Keldnaholti; svæði á Urriðaholti í Garðabæ; svæði fyrir vísindagarða í Vatnsmýrinni við Háskóla Íslands; svæði við miðsvæði Valla í Hafnarfirði og svæði í nágrenni við miðbæ Mosfellsbæjar.

Niðurstöður matsins á ofangreindum stöðum eru þær að út frá skipulagslegu sjónarmiði koma tvö svæði á höfuðborgarsvæðinu best út. Þau hafa reyndar verið skilgreind af skipulagsyfirvöldum sem þekkingarkjarnar eða miðstöðvar fyrir háskóla og rannsóknarstarfsemi til framtíðar. Þessi svæði eru Keldnaholt og Vatnsmýri. Urriðaholt er einnig skilgreint sem svæði undir svipaða starfsemi en þar sem uppbygging svæðisins er ekki hafin og það nokkuð fjarlægara samstarfsaðilum skólans en hinir tveir staðirnir fékk Urriðaholt slökustu útkomu þessara þriggja svæða.

Keldnaholt fékk bestu einkunn í samanburði kostanna. Þar vega þungt atriði eins og staðsetning, gott aðgengi, nálægð við rannsóknastofnanir með möguleika á enn nánara samstarfi. Einnig má nefna gott vaxtarrými, fallegt náttúrulegt umhverfi og nálægð við eitt helsta vaxtarsvæði þjónustuíbúðabyggðar á höfuðborgarsvæðinu næstu áratugi. Þetta kemur fram í þeirri skýrslu sem ég hef vísað til.

Vatnsmýrin fékk lægri einkunn en Keldnaholtið þegar staðsetningarkostirnir voru bornir saman. Samkvæmt fyrirliggjandi tillögum um þekkingarþorp í Vatnsmýrinni er ekki sýnt sérstakt svæði fyrir Tækniháskólann til framtíðar og óvíst er hvort sú staðsetning endurspegli í raun sérstöðu hans sem háskóla atvinnulífsins sem hann vill undirstrika að hann sé.

Ég hef ekki tekið afstöðu til þeirra hugmynda sem hafa fram komið í greinargerðinni enda hefur verið bent á, m.a. af bæjaryfirvöldum í Mosfellsbæ, að þær viðmiðanir sem þessi greinargerð miðar við séu ekki alveg réttar. Talið er að hægt væri að gera úttekt á fleiri svæðum í Mosfellsbænum þar sem það er vilji fleiri sveitarfélaga en Reykjavíkur að fá þennan ágæta skóla inn á sitt svæði.

Þetta er allt gott og gilt. Þessi gögn munu hjálpa okkur að fikra okkur áfram að í að finna út hvar framtíðarhúsnæði Tækniháskólans eigi að vera. Ég vil taka sérstaklega undir með hv. fyrirspyrjanda varðandi það að það er ekki gefið að Tækniháskóli Íslands verði áfram í Reykjavík. Ég hef oft sagt að það sé eins og einu staðirnir sem hægt er að byggja á skóla eða opinberar stofnanir séu annaðhvort í Reykjavík, þá helst 101, eða úti á landi. Ég tel að ekki hafi verið nægilega mikið litið til þeirra kosta sem bæirnir í kringum Reykjavík hafa að bjóða.