Framhaldsskóli í Mosfellsbæ

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 14:42:42 (5879)

2004-03-31 14:42:42# 130. lþ. 92.4 fundur 768. mál: #A framhaldsskóli í Mosfellsbæ# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi VF
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[14:42]

Fyrirspyrjandi (Valdimar L. Friðriksson):

Virðulegi forseti. Mosfellsbær er eitt af þeim sveitarfélögum sem fer ört stækkandi. Þar eru í dag 6.500 íbúar. Þar á sér mikil uppbygging stað og er jafnframt áætluð næstu árin. Mikil ásókn er í að búa þar í sveitinni og ljóst er að ef þar fjölgar eins í stefnir þá verður íbúafjöldinn árið 2006 um 8.000 manns. Af þessum 6.500 íbúum eru í dag um 440 framhaldsskólanemendur. Áætlað að þeim fjölgi í um 550 árið 2008 og verði allt að 650 árið 2010.

Í aðalskipulagi Mosfellsbæjar er gert ráð fyrir því að framhaldsskóli rísi í sveitarfélaginu í framtíðinni, skóli sem gæti auk þess að þjóna Mosfellingum þjónað nærliggjandi hverfum sem risið hafa í Reykjavík og koma til með að rísa á næstu árum, t.d. undir hlíðum Úlfarsfells. Í ljósi þessa spyr ég hæstv. menntmrh.:

Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að framhaldsskóla verði komið á fót í Mosfellsbæ? Ef svo er, hvenær gæti orðið af því?