Fjárveitingar til sérsambanda Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 14:57:58 (5888)

2004-03-31 14:57:58# 130. lþ. 92.5 fundur 803. mál: #A fjárveitingar til sérsambanda Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[14:57]

Ásta Möller:

Virðulegi forseti. Ég tek undir mikilvægi opinbers stuðnings við íþróttagreinar og sérstaklega til stuðnings sjálfboðastarfi eins og nefnt var áðan.

Ég vil þó í þessu sambandi benda á ójafnræðið milli opinberra framlaga til íþróttamála annars vegar og félags- og tómstundamála hins vegar, sérstaklega það sem snýr að börnum. Eins og við vitum felur bæði þátttaka í íþróttastarfi og félags- og tómstundastarfi í sér mjög mikilvægt uppeldislegt gildi og forvarnagildi fyrir börn og ungmenni. Kannanir sýna að um 40% barna og ungmenna taka þátt í íþróttastarfi en um 75% barna og ungmenna í félags- og tómstundastarfi. En opinbert framlag til íþróttafélaga er svona á milli fimm og sex sinnum hærra en til félags- og tómstundastarfs ungmenna og þá tel ég þar með framlög sveitarfélaga. Ég vil vekja athygli á því að kannski þarf að forgangsraða og leggja meiri áherslu á félags- og tómstundastarf í framtíðinni.