Fjárveitingar til sérsambanda Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 15:00:26 (5890)

2004-03-31 15:00:26# 130. lþ. 92.5 fundur 803. mál: #A fjárveitingar til sérsambanda Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[15:00]

Hjálmar Árnason:

Frú forseti. Ég vil eins og síðasti hv. ræðumaður fagna yfirlýsingu hæstv. menntmrh. um þennan samráðsvettvang. Samráðsvettvangur íþróttahreyfingarinnar og hins opinbera er löngu tímabær einmitt með þeim rökum sem hér voru kynnt að íþróttir eru svo mikilvægar samfélaginu öllu og fátt sem hefur jafnmikið forvarnagildi og íþróttir. Við gerum miklar kröfur til afreksfólks okkar og höfum verið að standa okkur eins og um heimsveldi væri að ræða á því sviði. Hins vegar eru svo hinar svokölluðu almenningsíþróttir sem ekki endilega eru keppnisíþróttir. Til þess að við stöndum okkur í afreksíþróttum kostar það okkur gífurlega peninga. Vandinn er sá að það verður alltaf erfiðara að fá fólk til þessara svokölluðu hugsjónastarfa og þess vegna er mikið leitað á náðir hins opinbera. Þarna þarf að finna hinn gullna meðalveg og einmitt þess vegna er svona samráðsvettvangur svo mikilvægur.