Auglýsingar í grunnskólum

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 15:14:49 (5898)

2004-03-31 15:14:49# 130. lþ. 92.6 fundur 805. mál: #A auglýsingar í grunnskólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[15:14]

Hjálmar Árnason:

Frú forseti. Hér er hreyft afskaplega viðkvæmu en um leið stóru máli og ég vil þakka hv. þm. Ástu Möller fyrir að hreyfa því.

Grunnskólanemendur eru líklega einn fýsilegasti markaður fyrir sölumenn sem um getur. Þar er bæði hægt að undirbúa verðandi markað og þar er þegar markaður í dag. Því er það auðvitað skylda okkar og samfélagsins að verja krakka sem eru skyldaðir til þess að vera í skóla.

Ég vil taka undir það sjónarmið að skólastjórar hafi allar heimildir til þess að setja sínar reglur og eigi að gera það. Ef þeir ekki gera það eru þeir að mínu mati að bregðast skyldum sínum og það er þá skólanefndar að bregðast við því. Ein af frumskyldum skólastjórnenda er að setja slíkar reglur og verja nemendur sína. En jafnvel þó allar auglýsingar væru bannaðar innan veggja skólans er bara nútímatæknin þannig að auglýsingar eru alls staðar og þess vegna hlýtur það að vera mikilvægasta verkefni hvers skóla að byggja upp sterka einstaklinga sem kunna að verjast auglýsingaflóðinu.