Auglýsingar í grunnskólum

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 15:16:01 (5899)

2004-03-31 15:16:01# 130. lþ. 92.6 fundur 805. mál: #A auglýsingar í grunnskólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., MÞH
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[15:16]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir þakkir til hv. þm. Ástu Möller fyrir að hafa hreyft þessu ágæta máli. Þetta er þarft mál að ræða, auglýsingar í grunnskólum. Það er alveg rétt sem hv. þm. Hjálmar Árnason benti á að grunnskólar eru fýsilegur markaður fyrir auglýsendur. Við skulum líka hafa í huga að þetta eru ekki allt saman slæmar auglýsingar eins og kom fram hjá hv. þm. Drífu Hjartardóttur. Sumar eru sakleysislegar tilkynningar. Ég tel engu að síður ástæðu til að hafa áhyggjur af þessu og tel fulla ástæðu til að mótaðar séu einhvers konar reglur í kringum þetta. Mér fyndist eiginlega best ef þær reglur kæmu frá skólastjórnum, sveitarfélögum og að foreldrar veittu skólanum aðhald og væru á verði. Það tel ég að væri besta lausnin.

Ég verð að segja sem foreldri að ég hef miklar áhyggjur af auglýsingaflóðinu sem dynur á börnum, ekki bara í skólum heldur líka í sjónvarpi. Þar er gríðarlega mikið af auglýsingum, sérstaklega ef maður er með aðgang að erlendum sjónvarpsstöðvum. Þar er beinlínis verið að gera út á börn með miklu auglýsingaflóði.