Auglýsingar í grunnskólum

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 15:19:27 (5901)

2004-03-31 15:19:27# 130. lþ. 92.6 fundur 805. mál: #A auglýsingar í grunnskólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[15:19]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil sérstaklega undirstrika að það er mjög alvarlegt hve mikil ásókn auglýsenda margra hverra hefur verið í grunnskólana og oftar en ekki á mjög hæpnum siðferðislegum forsendum og gagnvart slíkri ásókn eigum við að verjast. Hins vegar finnst mér algerlega ótækt að tala um að hjá öllum auglýsendum ráði græðgissjónarmiðið og það séu gírugir gróðapungar sem herja á grunnskólana. Eins og ég gat um áðan eru sumir ekki að beita góðum siðferðislegum meðulum á meðan oft, eins og ýmsir hv. þm. hafa bent á í dag, eru það bara eðlilegar tilkynningar sem viðkomandi fyrirtæki, þó það sé einkafyrirtæki, er að koma á framfæri við nemendur.

Ég ítreka einnig að ég tel ekki rétt að ráðuneytið setji fram miðstýrða reglu. Ég tel að það verði mun skilvirkara að það verði gert heima í héraði ef svo má kalla, að þetta verði samvinna á milli skólanna, foreldranna og sveitarfélaganna að setja reglur fyrir grunnskólana á heimaslóð.

Ég mun hins vegar huga að því hvort ég komi til með að beina því til sveitarfélaganna að þau taki þetta upp og skoði málin alvarlega í samvinnu við skólastjórnendur. Að því mun ég huga á næstu dögum.