Byggðakjarnar

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 15:21:52 (5902)

2004-03-31 15:21:52# 130. lþ. 92.8 fundur 704. mál: #A byggðakjarnar# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi KLM
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[15:21]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller):

Frú forseti. Fyrirspurn mín til hæstv. iðnrh. fjallar um framkvæmd byggðaáætlunar, þ.e. framkvæmd á þeirri 19 lína byggðaáætlun sem samþykkt var á Alþingi 3. maí árið 2002 og gildir fyrir árin 2002--2005. Í áliti meiri hluta iðnn. var fjallað um skilgreiningu á byggðakjörnum og bætt svolítið við það sem var í upphaflegu tillögunni. Með leyfi forseta vil ég lesa upp það sem stóð í meirihlutaáliti ríkisstjórnarflokkanna:

,,Eðlilegt er að skilgreina nokkra byggðakjarna og skilgreina hlutverk þeirra og stöðu í þjóðfélaginu. Í ljósi byggðaþróunar þykir nefndinni rétt að taka mið af eftirfarandi skiptingu:

Byggðakjarnar: Meiri hlutinn tekur undir hlutverk Akureyrar sem mótvægis við höfuðborgarsvæðið. Meiri hlutinn telur jafnframt að byggðakjarnar skuli byggðir upp á Ísafirði og á Miðausturlandi. Með því móti væru sköpuð boðleg búsetuskilyrði fyrir stærstu landshluta. Í hverjum byggðakjarna er eðlilegt að styðjast við sérkenni hvers staðar og byggja upp innviði á þeim grunni.``

Þetta sagði um byggðakjarnana sem fjallað var um í till. til þál. um stefnu í byggðamálum. En ég ætla að halda áfram, virðulegi forseti, að lesa úr meirihlutaákvæðinu vegna þess að þar var bætt við tveimur þáttum. Annars vegar um vaxtarsvæði:

,,Auk meginkjarna og byggðakjarna telur meiri hlutinn rétt að skilgreina vaxtarsvæði þar sem hið opinbera tryggir grunnþjónustu.``

Hins vegar, virðulegi forseti, var fjallað um jaðarsvæði. Lagt var til að fjalla þyrfti sérstaklega um búsetuskilyrði á jaðarsvæðum, þ.e. svæðum sem falla utan byggðakjarnasvæðisins og vaxtarsvæðisins samkvæmt áliti meiri hluta iðnaðarnefndar.

Það kom fram, virðulegi forseti, hjá fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga að ofangreind skipting hafi ekki átt sér stað og meiri hlutinn taldi því mikilvægt að þeirri vinnu yrði lokið fyrir 1. janúar 2003, í fyrra, í samstarfi ríkis og sveitarfélaga. Jafnframt telur meiri hlutinn mikilvægt að unnið verði landshlutaskipulag fyrir allt landið. Því vil ég í lokin, virðulegi forseti, leggja fram fyrirspurn til hæstv. iðnrh. um hvað gert hafi verið til að skilgreina það sem ég hef lesið upp úr meirihlutaáliti iðnaðarnefndar. Spurningin er svohljóðandi:

Hvað hefur verið gert til að skilgreina byggðakjarna og hlutverk þeirra, samanber álit meiri hluta iðnaðarnefndar um stefnu í byggðamálum fyrir árin 2002--2005?