Byggðakjarnar

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 15:31:38 (5906)

2004-03-31 15:31:38# 130. lþ. 92.8 fundur 704. mál: #A byggðakjarnar# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[15:31]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Einn af þessum byggðakjörnum er Ísafjörður. Þar var kallað til neyðarfundar fyrir fimm eða sex vikum. Þar höfðu sveitarstjórnarmenn ekki orðið varir við að búið væri að skilgreina hvað byggðakjarni þýddi í máli hæstv. ráðherra. Í framhaldi af þeim fundi lýsti 1. þingmaður kjördæmisins því yfir að fundað yrði með þingmönnum strax í framhaldinu. Sá fundur hefur ekki enn farið fram.

Mér finnst ástæða til þess að spyrja: Hvað er eiginlega um að vera? Er verið að vinna í þessu máli? Þarna lýstu menn aðstæðum, ástandi og horfum sem eru í raun skelfilegar. Það var enginn munur á ræðum manna eftir því hvort þeir studdu stjórnar- eða stjórnarandstöðuflokka á þessum fundi á Ísafirði.

Þeir spyrja eftir efndum hvað það varðar að skilgreina byggðakjarna og koma þeim byggðakjörnum til hjálpar sem á þurfa að halda.