Byggðakjarnar

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 15:32:50 (5907)

2004-03-31 15:32:50# 130. lþ. 92.8 fundur 704. mál: #A byggðakjarnar# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., EMS
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[15:32]

Einar Már Sigurðarson:

Frú forseti. Umræðan um byggðamál vill oft verða ansi neikvæð. Ég ætla að reyna að birta aðeins yfir henni með því að fagna því sem fram kom í ræðu hæstv. ráðherra, að nú væri lokið við byggðaáætlun fyrir Eyjafjarðarsvæðið. Það tel ég tímamót og þetta merka yfirlýsingu. Ég var síðast í gær að forvitnast um hvernig þetta mál stæði og fékk þær fréttir að þessu væri ekki lokið. Ég fagna mjög að náðst hafi að hnýta þá enda sem óhnýttir voru í gær og þessu sé lokið. Ég vil nota tækifærið og óska hæstv. ráðherra til hamingju með að tekist hafi að ljúka þessu verki. Jafnframt vil ég þó spyrja hæstv. ráðherra um hvenær við, óbreyttir þingmenn, fáum að njóta og kynnast þeirri áætlun sem nú er nýfrágengin.