Byggðakjarnar

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 15:39:23 (5912)

2004-03-31 15:39:23# 130. lþ. 92.8 fundur 704. mál: #A byggðakjarnar# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[15:39]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Það er hlutverk hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar að veita aðhald og alltaf er hægt að gera betur í þessum málaflokki, það efast ég ekki um.

Hins vegar vil ég fullvissa hv. þingmenn um að við erum að leggja okkur fram um að bæta stöðu landsbyggðarinnar. Ég tel að það hafi nú þegar borið nokkurn árangur miðað við að landsbyggðarflóttinn, ef svo má að orði komast, hefur stórlega minnkað. Í sumum landsbyggðarkjördæmum hefur fjölgað sem er mjög jákvætt.

Hér hefur margt borið á góma. Hv. þingmenn hafa skiljanlega talað um háhraðatengingu, opinber störf, kvótakerfi o.fl. En ég vil bara ítreka að þótt ég fari með byggðamál þá fer ég ekki með þessa málaflokka. Mér finnst mikilvægt að ítreka það. Mér finnst stundum, þegar hv. þingmenn eru í því stuðinu, að þá vilji þeir helst setja alla ábyrgðina á mig. Þó að ég hafi nokkuð sterk bein þá finnst mér það stundum aðeins of mikið. (ÖS: Það sýnir traust.) Það sýnir mikið traust, já, sennilega er það rétt.

Fyrirspyrjandi talar um að skilgreina og leggur gríðarlega áherslu á skilgreiningu á byggðakjörnum. Ég er ekki viss um að ástæða sé til að skrifa miklar skýrslur um það. Hv. þm. hefur stundum kvartað yfir því að of mikil vinna sé lögð í að skrifa skýrslur. Er það aðalatriðið fyrir okkur að við séum búin að skilgreina þetta nákvæmlega í skýrslu? Er ekki aðalatriðið að láta verkin tala? Mér finnst ekki aðalatriðið hvað það þýðir nákvæmlega að viðkomandi staðir hafi verið útnefndir sem byggðakjarnar eða vaxtarsvæði.

Ég get fullvissað hv. þm. um að við erum að leggja okkur fram um að bæta stöðu landsbyggðarinnar, ekki bara þeirra byggðakjarna sem hafa verið útnefndir heldur landsbyggðarinnar í heild. Hins vegar höfum við ekki svör við öllu og það geta komið upp aðstæður í ákveðnum byggðarlögum sem gera ástandið mjög erfitt, því miður.