Jöfnun búsetuskilyrða á landinu

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 15:41:50 (5913)

2004-03-31 15:41:50# 130. lþ. 92.9 fundur 773. mál: #A jöfnun búsetuskilyrða á landinu# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi KLM
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[15:41]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller):

Frú forseti. Það er rétt sem fram kom í svari hæstv. iðnrh. við þeirri fyrirspurn sem við vorum að ljúka umræðu um að það þarf að láta verkin tala. Hún lét þess líka getið í hinni stuttu byggðaáætlun sem samþykkt var, sem telur 19 línur, 19 línu áætlun, að láta verkin tala. Því höfum við oft kallað eftir á hinu háa Alþingi, að hæstv. ráðherra láti verkin tala.

Má ég biðjast undan því, virðulegur forseti, að hæstv. iðnrh. komi og svari fyrirspurn minni um búsetuskilyrði, sem ég ætla að bera upp eftir smástund, með því að fjalla um nýsköpunarmiðstöðina, sem er gott mál, vegna þess að hæstv. ráðherra er nýbúinn að segja okkur allt um það. Mætti ég líka biðja hæstv. iðnrh. um að segja okkur ekki frá hinni stórkostlegu uppbyggingu á Miðausturlandi. Það er líka búið að segja okkur frá því. Má ég líka biðja hæstv. iðnrh. í svari sínu að segja okkur ekki frá því að einhver stofnun hafi verið látin búa til bók um fólk og fyrirtæki, um búsetu og starfsskilyrði á landsbyggðinni, af því að við erum búin að lesa alla þá bók. (Gripið fram í.) Við vitum um allt sem stendur í bókinni. En það er svo, hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Norðvest. að menn lifa ekki á skýrslum eða bókum einum saman á landsbyggðinni heldur á aðgerðum. Það eru þær sem ég kalla eftir.

Virðulegi forseti. Fyrirspurn mín til iðnrh. að þessu sinni snýst um hvað líði aðgerðum til þess að jafna búsetuskilyrði í landinu eins og boðað er í núverandi byggðaáætlun.

Í gögnum um byggðaáætlun segir svo, með leyfi forseta:

,,Að ríkisstjórnin láti fara fram heildarathugun á mismunandi búsetuskilyrðum fólks í landinu. Jafnframt verði lagt mat á áhrif þeirra opinberu aðgerða sem hafa það að markmiði að jafna búsetuskilyrði í landinu og lagðar fram tillögur um breytingar ef þurfa þykir. Í því sambandi verði m.a. horft til reynslu nágrannaþjóða.``

Ég get tekið dæmi af reynslu nágrannaþjóða, ekkert sem þarf að finna upp að nýju heldur hefur lengi viðgengist, t.d. frádrátt vegna ferðalaga um langan veg til og frá vinnu. Einnig mætti nefna jöfnun á flutningskostnaði sem hæstv. iðnrh. segir stranda á reglum frá Brussel. Að mínu mati eru það arfavitlausar tillögur sem hún er að leggja fram í þeim efnum.

Virðulegi forseti. Ábyrgð á þessari tillögu á þessum punkti byggðaáætlunar er á hendi iðnrn. eins og þar segir.

Þess vegna hef ég lagt fram eftirfarandi fyrirspurn:

Hvað líður aðgerðum til þess að jafna búsetuskilyrði? Hvers má fólk vænta á næstu missirum að gert verði miðað við þær ágætu tillögur sem koma fram í áðurnefndri bók? Hvernig gengur með framkvæmdina?